Nokkuð hefur verið fjallað um núvitund og það að allir þurfi að ná tökum á þessar aðferð til að slaka á og núllstilla sig. Stress er fylgifiskur nútíma lífs og stundum verður það svo mikið að fólk hreinlega veikist. Án þess að vera sérstakur sérfræðingur í núvitund hefur mér skilist að galdurinn sé að vera hér og nú, í augnablikinu.
Í dag stundaði ég núvitund, þegar ég fór í berjamó. Að fara í berjamó snýst í mínum huga ekki um það að tína tugi lítra af berjum á sem styðstum tíma. Að fara í berjamó í mínum huga snýst um að komast út í móa, hlassa sér niður með litla dollu, tína upp í sig og láta eitt og eitt detta í dolluna. Þegar dollan er orðin full er kominn tími til að snúa sér að nestinu. Nestið er nauðsynlegur fylgifiskur þess að fara út í náttúruna. Allar ferðir verða betri ef nesti er með í för, sérstaklega þegar börn eru með.
Að lokinni nestisstund er gott að halla sér afturábak og horfa á skýin eða sólina, anda inn og út, njóta ilmsins frá lynginu og verða eitt með náttúrunni áður en byrjað er aftur að týna.
Þegar heim er komið er nauðsyn að eiga bæði rjóma og sykur svo hægt sé að borða þessi fáu ber sem koma heim. Það í sjálfu sér er sérstök núvitundar stund, það er nefnilega nánast heilög stund þegar maður borðar ársins fyrstu ber með rjóma og sykri.
Það ætla ég að gera á eftir. Mmmmmmm……..
Dilla.