Ég segi já!

Ingvar Þóroddsson þingmaður Viðreisnar í Norðausturkjördæmi skrifar
Ingvar Þóroddsson þingmaður Viðreisnar í Norðausturkjördæmi skrifar

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins er kveðið á um að halda skuli þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu eigi síðar en árið 2027. Heimsókn Ursulu von der Leyen til Íslands hefur endurvakið umræðuna um Evrópumál sem hefur tekið talsvert pláss á hinum ýmsu miðlum. Undirrituðum sýnist sem svo að kosningabaráttan fyrir væntanlega þjóðaratkvæðagreiðslu sé farin á fullt, ekki síst fyrir tilstuðlan minnihlutans á þingi sem hefur þó hingað til verið alfarið andvígur því að þjóðin fái að segja sitt í þessu mikilvæga máli.

Ein helstu rökin gegn framhald viðræðna sem undirritaður heyrir reglulega frá þeim sem andvígir kunna að vera, eru að viðræður um aðild Íslands að ESB séu eingöngu „aðlögunarviðræður“, einhverskonar pólitískt nýyrði sem á að miðla þeim skilaboðum að það sé ekkert til að semja um í aðildarviðræðum.

Auðvitað er það ekki þannig að hægt sé að semja um allt. Til dæmis þá er bann við dauðarefsingum grundvallarregla hjá Evrópusambandinu. Land þar sem dauðarefsingar viðgangast fengi aldrei að semja um málið við inngöngu í ESB, það þyrfti einfaldlega að „aðlagast“ og afnema þær. Þetta mögulega ýkta dæmi er að sjálfsögðu ekki eitt af þeim málum sem yrðu til umræðu við inngöngu Íslands í ESB. Það sama gildir um fjölmörg önnur mál þar sem sömu gildi ráða för bæði á Íslandi og í Evrópu eða þar sem við höfum þegar samræmt regluverk okkar við Evrópu gegnum þátttöku okkar í EES.

En svo er það sem við þurfum að semja um og ég tel að okkur muni takast það. Það á ekki síst við um sjávarútveginn. Evrópusambandið hefur komið sér upp sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sem verður að teljast afar rökrétt í ljósi þess að efnahagslögsögur aðildarríkjanna liggja þétt upp að hvor annarri og fiskistofnum er deilt. Það sama á ekki við um íslenska efnahagslögsögu. Því væri fullkomlega eðlilegt að tekið væri mið af sérstöðu Íslands þegar kemur að sjávarútvegi við hugsanlega inngöngu okkar í ESB.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þá formaður Framsóknarflokksins, sendi kjósendum bréf í sinni formannstíð þar sem hann tjáði sig um hver samningsmarkmið Íslands ættu að vera í aðildarviðræðum:

„Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem hefur markað sér skýra stefnu fyrir aðildarviðræður við Evrópusambandið og skilgreint samningsmarkið þeirra viðræðna. Framsókn hefur sett það sem skilyrði fyrir aðild að fullveldi og óskorað forræði yfir auðlindum þjóðarinnar verði grundvallarkrafa í þeim viðræðum, auk skilyrða sem lúta m.a. að hagsmunum landbúnaðar og sjávarútvegs. Fordæmi eru fyrir slíku í samningum annarra þjóða við Evrópusambandið og því algerlega rangt að halda því fram að þessar kröfur hamli því að af aðildarsamningi geti orðið."

Þessi orð tek ég heilshugar undir. Ég ætla að kjósa já í þjóðaratkvæðagreiðslunni um hvort Ísland eigi að nýju að sækja um aðild að Evrópusambandinu, því ég tel það vera rétt skref fyrir land og þjóð. Ég hyggst sem þingmaður leggja þunga áherslu á að í þeim viðræðum verði staðið vörð um íslensk yfirráð yfir íslenskum auðlindum, því þannig er hagsmunum Íslands best borgið. Ef á daginn kemur að það markmið næst ekki mun ég kjósa nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni þar sem kosið er endanlega um hvort Ísland eigi að gerast aðildarríki eður ei, því að ég tek þátt í þessu verkefni með hagsmuni Íslands að leiðarljósi.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar í Norðausturkjördæmi

 

Nýjast