Aldrei fleiri stúdentar við Háskólann á Akureyri

Hlýja og samkennd einkennir háskólann     Myndir aðsendar
Hlýja og samkennd einkennir háskólann Myndir aðsendar

„Nýnemadagar eru einn af mínum uppáhalds dögum hér í HA. Það er alltaf svo mikil tilhlökkun í loftinu, bæði hjá okkur sem erum fyrir og hjá þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í þessu geggjaða samfélagi. Ég man sjálf vel hversu spennandi það var að byrja hér og hvað það skipti mig miklu að finna strax fyrir hlýjunni og samheldninni sem einkennir HA,“ segir Dagbjört Elva Kristjánsdóttir, forseti Stúdentafélags Háskólans á Akureyri um næstu viku.

Í næstu viku eru nefnilega Nýnemadagar þar sem tekið er á móti nýstúdentum í grunnnámi. Nýstúdentar fá þá fræðslu um háskólasamfélagið, aðstöðuna, félagslífið og fyrirkomulag náms. Mikilvægt er að nýta sér dagskrá Nýnemadaga til að kynnast námsumhverfinu og til að hitta samstúdenta því það er gott að mynda tengsl strax á fyrsta degi.

Dagbjört bætir við: „Þessi vika er frábært tækifæri til að kynnast nýju fólki, skapa minningar og finna fyrir kraftinum sem fylgir því að vera hluti af HA. Ég hlakka mikið til að taka á móti ykkur og fagna með ykkur byrjuninni á ykkar eigin ævintýri hér í HA.“ Ítarleg dagskrá fyrir nýstúdenta í grunnnámi er aðgengileg á heimasíðu háskólans, unak.is.

Stærsti nýstúdentahópurinn hingað til

Í framhaldsnámi í stjórnun við Viðskiptadeild eru um 115 stúdentar að hefja nám, það er aukning um rúm 35% frá síðasta ári. Þá er Kennaradeild ein af þeim deildum sem eru að taka á móti sínum stærsta hópi frá upphafi. Þetta eru svipmyndir af þeirri aukningu í fjölda stúdenta sem háskólinn tekur á móti þetta skólaárið.

Aukningin gerir það að verkum að núna í næstu viku tökum við hjá háskólanum á móti stærsta nýstúdentahópi hingað til eða um 1500 nýstúdentum. Það er aukning um 13% frá fyrra ári. Óhætt er að segja að starfsfólk vinnur núna hörðum höndum við að undirbúa móttöku hópsins. Að mörgu er að hyggja til að tryggja góða upplifun stúdenta, bæði við undirbúning námskeiða sem og að öll aðstaða sé til fyrirmyndar.

Einnig er tekið vel á móti nýstúdentum í framhaldsnámi og er móttaka þeirra skipulögð af fræðasviðum og deildum háskólans. Fyrsti hópur stúdenta í framhaldsnámi mætir í hús vikuna eftir Nýnemadaga.

Nýjast