Nemendur í 6. bekk grunnskóla Akureyrarbæjar fara á haustdögum í vettvangsferð á sjó á Húna II EA 740. Það eru Hollvinir Húna II sem standa að ferðunum í samstarfi við Háskólann á Akureyri og fræðslusvið Akureyrarbæjar.
Í ferðunum fá nemendur að kynnast sjávarútvegi og lífríki sjávar á lifandi hátt, ásamt sögufræðslu um bátinn og ströndina. Rennt verður fyrir fisk og gert að honum með tilheyrandi fróðleik. Að lokum er aflinn grillaður og borðaður áður en komið er að landi.
Fræðsla fer fram í lest skipsins þar sem nemendur skoða gömul veiðarfæri og tól, og heyra um notkun þeirra. Einnig heimsækja þau skipstjórann í brúnni sem fræðir þau um stjórnun og siglingatæki skipsins.
Ferðin tekur um það bil þrjár klukkustundir og er nemendum bent á að klæða sig eftir veðri og koma með hollt og gott nesti.
Frá þessu segir á heimasíðu Akureyrarbæjar.