Þessi grein birtist fyrst í prentútgáfu Vikublaðsins 14. ágúst sl.
Árið 1985 fóru heimsfrægir könnuðir á Norðurpólinn, þeir Neil Armstrong, Sir Edmund Hillary, Peter Hillary, Steve Fossett og Patrick Morrow. Þrátt fyrir að allir þessir menn væru heimsfrægir fyrir að hafa náð að vera fyrstir í ýmsum könnunarleiðöngrum, þá fór þessi leiðangur ekki hátt í fjölmiðlum á sínum tíma. Nú 40 árum síðar hafa afkomendur Hillary og Armstrong, Peter Hillary, sonur hans Alexander, og Mark Armstrong snúið aftur til að minnast þessa leiðangurs,- og hver annar en Örlygur Hnefill Örlygsson er með í för; ásamt Rafnari Orra Gunnarssyni og Elvari Erni Egilssyni en þeir félagarnir hyggjast gera heimildarmynd um þennan frækna leiðangur 1985.
Örlygur er snúinn aftur til Íslands eftir ferðalagið á Norðurpólinn í júlí þegar blaðamaður Vikublaðsins sló á þráðinn til hans í byrjun vikunnar, en þó ekki uppí sófa að slaka á heldur var hann um borð í skemmtiferðaskipi á strandssiglingu umhverfis Ísland ásamt dóttur sinni hvar hann var að halda röð fyrirlestra um landkönnuði; hvað annað?
Aðspurður um aðdragandann að Norðurpólsferð hans segir Örlygur að tilhlaupið að þessu ævintýri hafi í raun hafist fyrir tíu árum síðan, þegar hann var að reka Könnunarsögusafnið á Húsavík.
„Ég er búinn að vera sýsla með þessa sögu í tíu ár, frá sumrinu 2015. Þá kom til okkar í Könnunarsögusafnið ævintýramaður frá Bandaríkjunum, Mike Dunn sem hafði farið með sir. Edmund Hillary og Neil Armstrong á Norðurpólinn árið 1985. Hann hafði lofað Armstrong því á sínum tíma að gera ekkert með þessa sögu á meðan hann væri á lífi, og hafði hana því bara fyrir sjálfan sig en tók það svo upp með sjálfum sér að koma til Húsavíkur og gefa Könnunarsögusafninu þessa sögu,“ segir Örlygur og bætir við að hann hafi langað til að gera heimildarmynd um þennan leiðangur síðan en það hafi komið babb í bátinn.
„Þannig er að eiginlega allt myndefnið úr leiðangrinum var glatað og ég var að verða úrkula vonar um að af þessu gæti orðið. Ég var hringdi stundum í Mike og bað um að leita, hann hafði nefnilega ráðið kvikmyndatökumannn með sér í þessa ferð, þegar það var svo ákveðið að gera ekkert úr þessu í bili þá var allt þetta efni sett í geymslu og honum hefur ekkert gengið að finna þetta aftur. En svo í byrjun þessa árs þá tókst konunni hans að finna þetta efni allt saman, gamlar filmur með fleiri klukkustundum af myndefni,“ segir Örlygur og það var eins og við manninn mælt, hugmyndir byrjuðu að vakna.
„Í kjölfarið heyrði ég í fjölskyldum Armstrong og Hillary og spurði hvort þau vildu ekki bara koma með mér á Norðurpólinn,“ segir Örlygur og eins og fólk með fræg eftirnöfn gerir þegar ævintýramaður frá Húsavík hringir,- það stekkur á vagninn.
„Við vorum svo að taka viðtöl við þau á leiðinni á pólinn og á leiðinni til baka þar sem þau eru að segja þessa sögu frá leiðangrinum 1985. Þetta er efniviðurinn í heimildamyndinni sem við Rafnar erum að gera og kemur vonandi út síðari hluta næsta árs,“ segir Örlygur og bætir við að þetta hafi verið einstök ævintýraferð.
Leiðangurinn var í boði Ponant Explorations en siglt var frá Svalbarða á ísbrjótnum „Le Commandant Charcot“, glæsilegri risavél sem er flokkuð sem Polar Class 2, sem þýðir að hún getur starfað allt árið á heimskautasvæðum og farið í gegnum allt að þriggja metra þykkan ís.
„Þetta var gríðarlega skemmtilegt og auðvitað rosalega mikið dýralíf sem við sáum. Við vorum með franskan skipsstjóra með hnausþykkan hreim í enskunni sinni og hann vakti okkur flestar nætur með því að kalla í hátalarakerfið í herbergjunum okkar „BEAR!“ og þá vissum við að ísbirnirnir voru mættir á svæðið. Við fengum líka að sjá rostunga, seli og hitt og þetta skemmtilegt,“ útskýrir Örlygur og bætir við að hlýnun jarðar hafi þarna birst honum skýrar en hann hafði órað fyrir.
„Ekki það að maður hafi ekki fylgst með fréttum undanfarin ár þar sem hamrað hefur verið á hnattrænni hlýnun, en á þessum köldu svæðum er þetta svo augljóst. Það er miklu heitara og blautara á pólnum en ég var búinn undir. Leiðangur Hillary og Armstrong 1985, þá fóru þeir á flugvél, en það hefði einfaldlega ekki verið hægt núna, við hefðum ekki getað lent,“ segir Örlygur.
Sonur Edmund Hillary, Peter var með í leiðangrinum 1985 og hann slóst einnig í för með Örlygi í júlí á þessu ári.
„Við vorum líka með leiðangursstjórann frá ´85, Mike Dunn og þeir nefndu það hvað hlýnunin væri augljós. Ekki það að þeir voru á ferðinni í apríl en við um mitt sumar, samt sem áður þá var rosalegur munur. Þarna var allt gaddfreðið á sínum tíma sem nú var bráðið. Eins með ísbrjótinn að hann var tveimur dögum fyrr á pólinn en áætlað var því ísinn var svo þunnur að greiðlega gekk að brjóta sig í gegnum hann. Það þýddi auðvitað að við fengum tvo auka daga á pólnum en að sama skapi er þetta ekki jákvæð þróun fyrir umhverfið,“ útskýrir Örlygur.
Um borð í ísbrjótnum var einnig teymi af vísindafólki sem hafi talað um hlýnunina.
„Þau töluðu um að þetta að sæist hvergi betur en á köldu svæðunum að jörðin er að hlýna, þau sögðu sama vera uppi á teningnum á Suðurpólnum, þar er mikil bráðnun að eiga sér stað,“ segir Örlygur.
Framundan er mikil vinna við að yfirfara allt myndefni úr leiðöngrunum tveimur og búa til tímalínu fyrir söguna sem á að segja.
„Nú erum við að fara í að fullvinna myndefnið, Rafnar er reyndar þegar byrjaður. Þetta er búið að vera mikil törn, taka upp 12-15 tíma á dag og svo vorum við að fylgjast með dýralífinu um næturnar, það var alltaf svo mikið um að vera á nóttunni, ég veit ekki alveg afhverju það er því þarna var bjart allan sólarhringinn. Rafnar er að vinna í því að fara yfir myndefnið og skoða tímalínuna en ég reikna með að það fari a.m.k. ár í að púsla þessari mynd saman, bæði úr gamla efninu og svo þessu nýja og töluverðu af öðru safnaefni líka. Við náttúrlega segjum sögur af þessum landkönnuðum inn í þessu efni,“ útskýrir Örlygur og bætir við að um mjög áhugavert efni sé að ræða og þarna leynist perlur sem ekki hafi áður ratað fyrir augu almennings.
„Það sem mér þótti áhugaverðast í þessari sögu allri er að þeir fara þarna á pólinn 1985 með flugi frá Kanada, en við fórum í gegnum Longyearbyen á Svalbarða. Það er vatn þarna við Pólinn sem er nyrsta stöðuvatn í heimi og er frosið langstærsta hluta ársins, þar lenda þeir flugvélunum og fljúga svo þaðan á skíðaútbúnum flugvélum upp á pólinn og þegar þeir koma til baka þá er veðrið búið að versna svona allsvakalega. Þeir komast við illan leik í kofa þarna við vatnið og er fastir þar í þrjá daga í brjáluðu veðri, Neil Armstrong, Edmund Hillary og Steve Fossett sem fór fyrstur á loftbelg umhverfis heiminn og Patrick Morrow sem var fyrstur til að klífa sjö tindana. Þarna voru þeir saman komnir í vari fyrir náttúruöflunum og höfðu ekkert að gera annað en að segja sögur,“ segir Örlygur greinilega uppnuminn.
„Ég er búinn að kafa svolítið í þetta, Armstrong var t.d. búinn að lesa sér mikið til fyrir leiðangurinn og mikið um landkönnuði og var búinn að skrifa níu blaðsíður af frásögnum um sænskan landkönnuð sem fór á loftbelg við pólinn árið 1897 og fórst. Ég er með þessa punkta hans undir höndum frá fjölskyldunni og það er áhugavert að lesa þetta. Þarna voru þeir bara þessir frægu landkönnuðir að skemmta sér yfir frásögnum af öðrum landkönnuðum og alls kyns ævintýrum. Við höfum kafað aðeins í þessar sögur því það eru til heimildir um þetta og fléttum þetta inn í frásögnina í heimildamyndinni. Þetta verður svona blanda af gömlu og nýju,“ segir Örlygur.
Um kvikmyndagerðina segir Örlygur að ekki hafi verið gerðir samningar um framleiðslu og dreifingu enn sem komið er en það sé með vilja gert. „Við erum að gera þetta sjálfir ég og Rafnar og viljum komast eins langt með söguna og við getum áður en við fáum eitthvað fyrirtæki til að fjármagna þetta með okkur og munum nýta allar þær tengingar sem við höfum,“ segir hann.
Eins og fram kom í upphafi þessarar ferðasögu er Örlygur staddur um borð í skemmtiferðaskipi við Íslandsstrendur þegar viðtalið fer fram og hann lætur vel að dvölinni. „Ég er að að vísu að sigla í helvítis brælu núna við Reykjanestána. Ég ætlaði að vera í Vestmannaeyjum á morgun en mér sýnist að vegna veðurs þá sleppum við eyjum og förum beint á Seyðisfjörð. Ég tek stundum svona túra þar sem ég er að halda fyrirlestra um landkönnun og alls konar. Ég er meira að segja með dóttur mína með mér í þessum túr. Það er rosalega gaman á þessum skemmtiferðaskipum, þetta er mestmegnis Bandaríkjamenn, eða svona 70-90 prósent og þegar veðrið er leiðinlegt þá hreyfa þeir sig ekkert. Þessi skemmtiferðaskip eru öll útbúin með sundlaugum og þetta svæði á ég og minn farþegi yfirleitt út af fyrir okkur við Íslandsstrendur, því það nennir enginn að hanga þarna í brælunni við Ísland. Við vorum einmitt að koma úr lauginni rétt í þessu,“ segir Örlygur og við látum það verða lokaorðin.