Samþætting sölu, veiða og vinnslu lykilatriði í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja

Jón Sigurðsson stjórnarformaður Samherja hf. / mynd Birgir Ísleifur Gunnarsson
Jón Sigurðsson stjórnarformaður Samherja hf. / mynd Birgir Ísleifur Gunnarsson

Jón Sigurðsson stjórnarformaður Samherja hf. hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu. Hann var forstjóri stoðtækjafyrirtækisins Össurar ‏í 26 ár og hefur setið í stjórnum fjölmargra félaga, bæði hér á landi og erlendis.

Jón tók við formennsku í stjórn Samherja fyrr á þessu ári af Baldvini Þorsteinssyni sem á sama tíma gerðist forstjóri félagsins. Jón sat áður í stjórn Samherja hf. frá 2002 til 2006. Hann þekkir því vel til starfsemi Samherja.

Ekki lengur veitt í gríð og erg til að “bjarga verðmætum”

“Félagið hefur stækkað og eflst verulega frá því ég var í fyrst stjórn þess upp úr aldamótum. Árangurinn sést meðal annars á gríðarlegum fjárfestingum í landvinnslunni og nægir þar að nefna vel búnar og tæknivæddar landvinnslur á Dalvík og Akureyri. Sömu sögu er að segja um fiskiskipin sem eru afskaplega vel búin á allan hátt. Ég nefni einnig miklar fjárfestingar í landeldi á laxi og bleikju í Öxarfirði og á Suðurnesjum, flestir eru sammála um að Samherji sé leiðandi fyrirtæki í þessum efnum. Félagið hefur náð að tengja markaðinn við framleiðsluna, sem er í raun lykilatriði til að ná árangri. Í dag má segja að þarfir markaðarins stýri veiðum og vinnslu en ekki öfugt.

Þegar ég var að alast upp á Suðurlandi, var stórum hluta ársaflans gjarnan landað í einum og sama mánuðinum á vetrarvertíðum. Þá var talað um að bjarga verðmætum, fæstir hugsuðu um hvernig ætti svo að selja afurðirnar, bara veiða sem mest á sem stystum tíma. Í dag er viðhorfið allt annað, góðu heilli. Auðvitað væri hægt að benda á fleiri breytingar í starfseminni en þessir grunnþættir sem ég hef nefnt hafa haft afgerandi áhrif til hins betra.”

Vinnsluhúsiið á Dalvík er afar vel búið á allan hátt. Við bryggju eru togararnir Björg EA 7 og Björgúlfur EA 312 / mynd Þórhallur Jónsson

 

Gæðaafurðir á samkeppnishæfu verði

Jón hefur vegna starfa sinna fylgst náið með íslensku atvinnulífi, þar með sjávarútvegi. Hann segir að framlag greinarinnar til þjóðarbúsins hafi aukist jafnt og þétt. Mjög sé horft til Íslands sem fyrirmyndar, enda sjávarútvegur ríkisstyrktur í flestum samkeppnislöndum Íslands.

„Greinin er tæknivæddari en víðast hvar í heiminum og fagmennska hefur aukist, meðal annars vegna farsællar samvinnu við innlend hátæknifyrirtæki. Allan þennan dýra og framúrskarandi tæknibúnað þarf auðvitað að nýta sem allra best, sem kallar á stærri og þar með hagkvæmari rekstrareiningar, sem standa þannig betur í harðri alþjóðlegri samkeppni. Á endanum snýst þetta jú um að geta boðið viðskiptavinum upp á gæðaafurðir á samkeppnishæfu verði. Staðreyndin er hins vegar sú að tiltölulega fá íslensk fyrirtæki hafa þann slagkraft og þekkingu til að ná fram nauðsynlegri samþættingu á sölu afurða, veiða og vinnslu. Það er vissulega alltaf hægt að gera betur í dag en í gær, þá er nýsköpun og fjárfesting líka nauðsynleg til að tryggja aukna skilvirkni og framþróun.

Veglegur bás Samherja á alþjóðlegu sjávarútvegssýningunni í Barcelona á Spáni / mynd samherji.is

 

Okkur hefur auðnast að byggja upp öflug sölunet á helstu mörkuðum og orðspor Íslands er almennt gott. En samkeppnin er hörð og við verðum alltaf að vera á tánum. Ég var í Frakklandi um daginn og fór meðal annars á matarmarkað. Þar voru íslenskir ‏þorskhnakkar dýrasti maturinn sem í boði var, sem segir sína sögu um árangur okkar. Sölufélag Samherja, Ice Fresh Seafood, er öflugt, þar starfar samhentur og lausnarmiðaður hópur með víðtæka reynslu af sölu og afhendingu sjávarafurða.“

- Sjávarútvegsfyrirtæki sem teljast stór á íslenskan mælikvarða en eru hins vegar lítil á alþjóðlegum mörkuðum ?

 

„Já, það er rétt og þversögnin í þessu öllu saman er sú að í almennri umræðu hér á landi eru þessi fyrirtæki af mörgum talin vera of stór, stærðin sé hreinlega löstur. Nú ætla ég ekki að blanda mér mikið í þessa umræðu en þetta er staðan að mínu mati. Umræðan hefur á margan hátt verið neikvæð í gegnum tíðina, samt sem áður er staðreyndin sú að íslenskur sjávarútvegur er hátt skrifaður á heimsvísu og fiskveiðistjórnunarkerfið hefur í megindráttum gefist vel, þótt eflaust megi það bæta.

Neikvæð umræða um sjávarútveginn skilar okkur ekkert áfram, er í raun skaðvaldur fyrir þjóðarbúið í heild sinni og hefur örugglega fælt fjárfesta frá greininni, sem er auðvitað áhyggjuefni. Sjávarútvegur er ekki aðeins þjóðhagslega mikilvægur, greinin er lifibrauð margra byggðarlaga á landsbyggðinni, þannig að það er mikið undir í þessum efnum. Ef ég man rétt eru um áttatíu prósent atvinnutekna á landsbyggðinni vegna sjávarútvegs og það er ansi hátt hlutfall.“

Vinnsluhús ÚA á Akureyri. Flutningabíll leggur af stað með afurðir til útflutnings / mynd Hörður Geirsson.

 

Stærri fyrirtæki líklegri til að ráðast í fjárfestingar en þau minni

Jón minnir á að ramminn utan um greinina kveði á um ákveðin stærðarmörk fyrirtækja.

„Það og afstaða stjórnvalda er viss áskorun en við verðum einfaldlega að leita allra leiða til að gera reksturinn sem skilvirkastan, meðal annars með stöðugri framför í tækni og vöruþróun. Það þarf útsjónarsemi og fjárfestingar til að gera verðmæti úr sjávarauðlindinni og tryggja þar með samkeppnishæfni. Stærri fyrirtæki eru líklegri en þau minni til að hafa burði og getu til að ráðast í stórar fjárfestingar, svo sem endurnýjun skipa og landvinnslu.

Þegar slíkar ákvarðanir eru teknar þarf viss fyrirsjáanleiki að vera til staðar, annars er hætta á að stjórnendur fyrirtækjanna haldi að sér höndum og geri sem minnst. Núna er til dæmis uppi sú staða að endurnýjun skipaflotans er ekki nógu mikil, flotinn er einfaldlega að eldast. Þetta getur orðið til þess að verðmætasköpun verður minni, markmiðum í loftslagsmálum verður síður náð og svo framvegis. Stjórnvöld verða sem sagt að hafa ákveðinn skilning á atvinnugreininni og forðast eftir mætti að skapa óþarfa óvissu.“

Hreinleiki lands og sjávar skipta höfuðmáli

Jón segir að helstu ógn sjávarútvegsins megi rekja til umhverfismála í víðum skilningi. Þess vegna skipti hreinleiki lands og sjávar höfuðmáli.

Sjávarútvegsfyrirtækin taki hlutverk sitt alvarlega sem framleiðendur matvæla, þannig hafi greinin dregið verulega úr olíunotkun en vissulega sé alltaf hægt sé að gera enn betur. Hann nefnir sem dæmi að fiskimjölsverksmiðjur hafi verið rafvæddar en á sama tíma fáist ekki afhent rafmagn.   Staðreyndin sé að íslenskur fiskur er veiddur með sjálfbærum hætti og hefur mun minna kolefnisspor en fiskur frá öðrum löndum.

 

Framkvæmdir eru hafnar við byggingu landeldis Fiskeldis Samherja á Reykjanesi / mynd Jón Steinar Sæmundsson.

 

- Hvernig blasir framtíð Samherja við stjórnarformanninum ?

 „Félagið er á flestan hátt vel sett og þegar við horfum til framtíðar er ágætt að horfa fyrst til fortíðar. Samherji hefur alla tíð lagt áherslu á fjárfestingar í rekstrinum með nýsmíði skipa, byggingu vinnsluhúsa og innleiðingu tæknilausna. Síðustu árin hefur verið fjárfest verulega í landeldi, bæði í Öxarfirði og á Suðurnesjum. Þessar fjárfestingar hafa verið vandlega undirbúnar, enda byggðar á áratuga reynslu starfsfólks. Þegar upp er staðið er mannauðurinn helsti styrkleiki fyrirtækisins. Hjá Samherja starfa í kringum 800 manns og hár starfsaldur segir mér að félagið er góður samstarfsaðili. Það tekur langan tíma að byggja upp víðtæka reynslu og þekkingu í umfangsmiklum rekstri og það hefur stjórnendum félagsins auðnast að gera með eftirtektarverðum hætti.

Allir starfsmenn skipta máli, eru mikilvægir hlekkir eins og stundum er sagt. Ég hef fylgst ágætlega með aðdraganda að byggingu stórrar landeldisstöðvar Samherja fiskeldis á Reykjanesi og undirbúningurinn hefur verið hnitmiðaður. Núna eru jarðvegsframkvæmdir hafnar og tel að vel sé staðið að öllum þáttum. Stækkun landeldisstöðvarinnar í Öxarfirði og innleiðing nýrrar tækni þar var í raun undanfari byggingar stóru stöðvarinnar á Reykjanesi. Þessi leið er ákaflega skynsamleg að mínu mati. Þegar á heildina er litið er ég bjartsýnn á framtíðina fyrir hönd Samherja. Framsýni stjórnenda félagsins er einkennandi frá upphafi.“

 

Forstjóri og stjórn Samherja: Frá vinstri: Baldvin Þorsteinsson forstjóri. Kristján Vilhelmsson, Dagný Linda Kristjánsdóttir varaformaður, Jón Sigurðsson formaður, Ásta Dís Óladóttir og Óskar Magnússon. / mynd Axel Þórhallsson

 

Stofnendur Samherja frumkvöðlar á heimsvísu í sjávarútvegi

„Þegar saga og uppbygging Samherja er skoðuð er hægt að fullyrða að stjórnendur félagins eru frumkvöðlar á heimsvísu. Þeir frændur Þorsteinn Már Baldvinsson og Kristján Vilhelmsson hafa sannarlega lagt sín lóð á vogarskálarnar í þróun atvinnugreinarinnar, líklega þyngri lóð en þeir sjálfir gera sér grein fyrir í dag. Örar tæknibreytingar hafa verið áberandi og þar hefur Samherji verið í fararbroddi með áherslu á samvinnu við íslensk hátækni- og nýsköpunarfyrirtæki. Þeirra sýn á atvinnugreinina hefur alla tíð verið framsækin og er árangurinn aðdáunarverður. Vissulega hafa vindar blásið um félagið en þannig er það yfirleitt með frumkvöðla og í slíkum aðstæðum er skýr framtíðarsýn og traust gulli betra. Þeir félagar hafa lifað og hrærst í greininni í áratugi og geta sannarlega verið stoltir af verkum sínum."

Hlakkar til samstarfsins

Kynslóðaskipti eiga sér nú stað innan Samherja. Árið 2020 tilkynntu aðaleigendur félagsins að þeir hefðu framselt hlutabréfaeign sína í félaginu til barna sinna. Liður í þessari þróun er að Baldvin Þorsteinsson tók við sem forstjóri félagsins fyrr á þessu ári en faðir hans, Þorsteinn Már Baldvinsson, hafði verið forstjóri frá upphafi eða í 42 ár.

„Baldvin Þorsteinsson er vel hæfur til að gegna þessu starfi og ég hlakka til að vinna með honum að ýmsum málum. Baldvin er vel menntaður og hefur tekið að sér margvísleg ábyrgðarstörf, sem hvortveggja kemur til með að nýtast honum vel í starfi. Með mér í stjórn er fólk með víðtæka reynslu og þekkingu, þannig að ég held bjartsýnn í þessa vegferð og er þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt með því að fela mér formennsku í stjórn félagsins,“ segir Jón Sigurðsson stjórnarformaður Samherja hf.

Þetta viðtal birtist fyrst á heimasíðu Samherja

Nýjast