Viðskiptagreining Landsvirkjunar stóð fyrir opnum fundi í Hörpu fimmtudaginn 4. desember um þróun mála hjá álverum og kísilframleiðendum síðustu misseri og hún sett í samhengi við íslenskan raunveruleika og alþjóðamarkaði.
Eftir tvö áhugaverð erindi um stöðu mála og horfur var boðið upp á pallborðsumræður þar sem Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra, Álfheiður Ágústsdóttir forstjóri Elkem á Íslandi, Kári Marís Guðmundsson fyrrum forstjóri PCC á Bakka og Karl Guðmundsson verkefnastjóri stórfjárfestinga hjá forsætisráðuneytinu sáttu fyrir svörum um fundarefnið. Aðalsteinn Árni Baldursson var að sjálfsögðu á svæðinu til að kynna sér stöðuna og ná tali á þeim sem eru í stöðu til að hafa áhrif á það að starfsemi PCC hefjist á ný á Bakka. Eins og staðan er í dag er það ekki útilokað enda kom fram í samtölum sem formaður Framsýnar átti við ráðherra atvinnumála og verkefnastjóra stórfjárfestinga að stjórnvöld ætluðu sér að gera allt sem þau gætu til að vinna að framgangi málsins með það að markmiði að starfsemi hefjist á Bakka á ný sem fyrst.

Formaður Framsýnar náði samtali við Hönnu Katrínu Friðriksson atvinnuvegaráðherra um stöðuna á Bakka og framtíðina hvað varðar starfsemi fyrirtækisins. Hanna fullvissaði formann Framsýnar um að allt yrði gert á vegum stjórnvalda til að liðka fyrir því að starfsemin á Bakka hefjist á ný sem fyrst.

Framsýn hefur ákveðið að leggja mikla vinnu í atvinnumál, ekki síst í ljósi þess að starfsemi PCC liggur niðri. Félagið hefur falið formanni félagsins, Aðalsteini Árna, að fylgja málinu eftir enda hagsmunir félagsins miklir. Liður í því er að eiga gott samstarf við stjórnvöld um framvindu mála. Á fundi Landsvirkjunar í gær notaði hann tækifærið og fundaði óformlega með Karli Guðmundssyni verkefnastjóra stórfjárfestinga hjá forsætisráðuneytinu um málefni PCC. Niðurstaðan var að eiga mjög gott samstarf um verkefnið, það er að starfsemi PCC á Bakka geti hafist aftur af fullum krafti.

Staðan tekin, Álfheiður Ágústsdóttir forstjóri Elkem á Íslandi, Kári Marís Guðmundsson fyrrum forstjóri PCC á Bakka, Kristín Anna Hreinsdóttir núverandi forstjóri PCC á Bakka og Þórður Magnússon dr. í málmfræðum og ráðgjafi í ofnrekstri hjá PCC eru hér ásamt formanni Framsýnar Aðalsteini Árna Baldurssyni.