Nýsköpunarsjóðurinn Kría fjárfestir í norðlensku fyrirtækjunum Grænafl og Sea Thru

Nýsköpunarsjóðurinn Kría (NSK) hefur tilkynnt niðurstöðu í fjárfestingátaki þar sem sjónum var beint að ungum sprotafyrirtækjum. Fjárfest er í 11 sprotafyrirtækjum, þar af eru tvö frá Norðurlandi; Grænafl og Sea Thru ehf., en bæði fyrirtækin eru þátttakendur í Hlunninum, ársprógrammi Driftar EA.

„Það er mjög ánægjulegt að Grænafl og Sea Thru nái að sýna sig og sanna með þessum hætti og sækja verðmæta fjármögnun til uppbyggingar. Bæði verkefni eru á mikilvægum stað í þróunarferlinu og í báðum tilfellum sannast að þrautseigja, metnaður og eljusemi skila árangri. Við hjá Drift EA erum þeirra forréttinda aðnjótandi að fá að fylgjast að og styðja við verkefnin og teymin sem standa að þeim. Við höfum séð mikla jákvæða þróun og hlökkum til að styðja áfram við þessi og önnur metnaðarfull verkefni hér á Akureyri og víðar", segir Hreinn Þór Hauksson, Leiðtogi fjárfestingar og frumkvöðlaverkefna hjá Drift EA.

Grænafl snýr að orkuskiptum í smærri bátum með því að taka olíuvélar úr bátum sem þegar eru í notkun og setja í ýmist blendingsvélar eða batterí.

,,Við fögnum innilega þessari fjárfestingu frá Nýsköpunarsjóð Kríu. Hún mun gera okkur kleift að hefja breytingar á fyrsta bátnum þannig að hann muni keyra á 100 prósent rafmagni í stað olíu og hefja þannig rafvæðingu íslenska skipaflotans.

Það er gríðarlega mikilvægt að við hefjum strax verkefni sem eiga að vinna að því að Ísland nái markmiðum sínum í loftslagsmálum árið 2030 því það er bara handan við hornið.

Við höfum unnið að þessu verkefni um hríð í samstarfi við innlend fyrirtæki eins og HS Orku, og kóresk fyrirtæki og stjórnvöld, því lausn okkar verður notuð í orkuskiptum minni skipa bæði á Íslandi og í Suður-Kóreu.

Við komumst inn í Hlunninn hjá Drift EA fyrir tæpu ári síðan, sem hefur veitt okkur aðgang að sérfræðingum, leiðsögn og fjármagni, en það hefur gert okkur kleift að ná þangað sem við erum komin í dag.

Nú er bara að ná í verkfærin og fara að breyta bátum!”
- Kolbeinn Óttarsson Proppé, stofnandi og framkvæmdastjóri Grænafls

Sea Thru er hugbúnaðarlausn fyrir rekjanleika sjávarafurða í gegnum alla virðiskeðjuna sem stuðlar að auknu matvælaöryggi og fylgir sífellt strangari alþjóðlegum reglum um rekjanleika afurða. Nokkurs konar Google Maps fyrir fisk.

„Við erum bæði stolt og þakklát fyrir þennan stuðning og þá viðurkenningu sem í honum felst. Hann gefur Sea Thru byr undir báða vængi og styrkir getu okkar til að ná þeim markmiðum sem við höfum sett okkur fyrir næsta ár.

Það skiptir okkur líka miklu máli að geta sagt frá því að MSC, stærsti vottunaraðili villts sjávarfangs í heiminum, hefur nú veitt okkur formlega stuðningsyfirlýsingu, sem er einstakt. Samstarfið okkar við leiðandi fyrirtæki í virðiskeðju íslensks sjávarfangs, stuðningur MSC og fjárhagslegur stuðningur fjárfesta og styrktaraðila, ásamt öflugu og fjölhæfu teymi félagsins, sýna að Sea Thru er að verða hluti af sjálfum innviðum virðiskeðjunnar og þátttakandi í þeirri stafrænu þróun sem nú á sér stað.

Þá vil ég líka að þakka Drift EA sérstaklega, en þetta framtak þeirra frænda Þorsteins Más og Kristjáns Vilhelmssonar kom okkur og öðrum frábærum verkefnum af stað með ómetanlegum stuðningi, ekki síst andlegum, en nýsköpun er ansi mikil rússíbanareið á köflum.“

- Arna Bryndís Baldvins McClure, stofnandi og framkvæmdastjóri Sea Thru ehf.

Nýjast