Nýsköpunarsjóðurinn Kría fjárfestir í 11 sprotafyrirtækjum

Frá kynningu þar sem frumkvöðlarnir kynntu fyrir hópi fjárfesta og annarra sína viðskiptahugmynd og …
Frá kynningu þar sem frumkvöðlarnir kynntu fyrir hópi fjárfesta og annarra sína viðskiptahugmynd og félag

Nýsköpunarsjóðurinn Kría (NSK) hefur tilkynnt niðurstöðu í fjárfestingátaki þar sem sjónum var beint að ungum sprotafyrirtækjum. Sjóðurinn auglýsti átakið í september og október síðastliðnum. Alls sóttu 88 félög um fjárfestingu sem er rúmlega 20% aukning frá fyrra átaki árið 2023. Eftir ítarlegt valferli voru ellefu félög valin úr hópi umsækjenda og mun NSK fjárfesta í þeim fyrir samtals um 300 milljónir króna. Eitt af skilyrðum átaksins er að félögin tryggi sér a.m.k. sömu upphæð frá einkafjárfestum. Samanlagt mun fjárfesting NSK og einkafjárfesta því verða að minnsta kosti 600 m.kr. í þessum ellefu félögum.

Í fjárfestingarátakinu var áherslan lögð á ung sprotafyrirtæki. Fyrirtækin sem fjárfest verður í eru úr ýmsum atvinnugreinum. Tvö af fyrirtækjunum eru af landsbyggðinni og blönduð teymi á bak við flest félögin.

Hrönn Greipsdóttir forstjóri NSK:

„Áhuginn á fjárfestingarátaki NSK sýnir að mikil gróska er til staðar í nýsköpun á Íslandi og fjöldi umsókna fór fram úr okkar væntingum. Umsóknirnar voru almennt mjög sterkar svo valið var ekki létt. Utanaðkomandi sérfræðingar voru fengnir til að leggja mat á umsóknir með okkur til að tryggja fjölbreytta og óvilhalla yfirferð. Við vonumst til að félögunum takist að fá mótframlag og geti þannig styrkt áætlanir sínar um vöxt og framgang.“

Félögin sem valin hafa verið til fjárfestingar eru í stafrófsröð:

  • Catecut Hugbúnaðarlausn sem með aðstoð gervigreindar sjálfvirknivæðir vörulýsingar út frá ljósmyndum fyrir tískuvöruverslanir á netinu.
  • Circular Library– Útlánstjórnkerfi sem gerir samfélögum kleift að deila og fá lánaða ýmsa hluti með það að markmiði að draga úr sóun og styðja við sjálfbæra framtíð.
  • Disact – Byltingakennd lausn sem bætir innivist og heilbrigði húsnæðis á Íslandi. Nýjar aðferðir við ástandsskoðun, greiningu og mygluvarnir.
  • Grænafl– Orkuskipti í smærri bátum með því að taka olíuvélar úr bátum sem þegar eru í notkun og setja í ýmist blendingsvélar eða batterí.
  • Kaldur therapeutics– Þróun lífmerkja og nýrra lyfjaafleiða til að draga úr taugaskaða hjá sjúklingum sem verða fyrir súrefnisskorti til heila eftir hjartastopp, súrefnisskort við fæðingu og önnur áföll.
  • Knittable– Gervigreindarknúið reiknirit sem hjálpar prjónurum að vera skapandi í prjóni þannig að hver sem er hafi færi á að prjóna hvað sem er.
  • Pikkoló – Snjalldreifikerfi fyrir matvörurverslanir á netinu. Meginmarkmið Pikkoló er að hjálpa fólki að nálgast fjölbreyttar og ferskar mat- og dagvörur í nærumhverfi sínu með einföldum, ódýrum og umhverfisvænum hætti.
  • SagaReg – Sérhæfður hugbúnaður sem nýtir gervigreind til að sjálfvirknivæða gerð umsóknarskjala (e. dossiers) sem lögð eru inn til heilbrigðisyfirvalda þegar sótt er um markaðsleyfi fyrir lyf. Lausnin styttir ferilinn og kostnað um 70-90%.
  • Sea Growth - Frumuræktað sjávarfang eða vistfiskur. Fyrirtækið þróar framleiðslu á fiskmeti í líftönkum sem tryggir sambærilegt bragð og næringargildi og hjá hefðbundnum fiskmeti.
  • Sea Thru – Hugbúnaðarlausn fyrir rekjanleika sjávarafurða í gegnum alla virðiskeðjuna sem stuðlar að auknu matvælaöryggi og fylgir sífellt strangari alþjóðlegum reglum um rekjanleika afurða. Nokkurs konar Google Maps fyrir fisk.
  • Total Tempo – Tæknilausn fyrir fótboltaþjálfun sem snýr að því að bæta umhverfisskynjun, viðbragðstíma og ákvörðunartöku fótboltaiðkenda.

Frá þessu segir í tilkynningu frá Nýsköpunarsjóðinu  Kríu

Nýjast