Árangursríkur fundur með Qair Ísland og Arctic Hydro

Fundarmenn voru sammála um að fundurinn hafi verið árangurríkur í alla staði en hann fór fram í fund…
Fundarmenn voru sammála um að fundurinn hafi verið árangurríkur í alla staði en hann fór fram í fundarsal stéttarfélaganna

Í kjölfar hinna miklu og jákvæðu tíðinda um styrkingu flutnings- og dreifikerfis raforku á Norðausturlandi sem Jóhann Páll Jóhannsson, ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála, kynnti á fundi á Þórshöfn þann 6. nóvember sl. hittust forsvarsmenn Framsýnar stéttarfélags og orkufyrirtækjanna Qair Ísland og Arctic Hydro á fundi á Húsavík í gær, 2. desember. Orkufyrirtækin starfrækja nú þegar tvær virkjanir á svæðinu, sem eru vatnsaflsvirkjanirnar Köldukvíslarvirkjun (2,65 MW) í Tjörneshreppi og Þverárvirkjun í Vopnafirði (6 MW). Ennfremur eru félögin með allnokkra virkjanakosti í þróun og eru þeir m.a. vindorkukosturinn Hnotasteinn (216 MW) í Norðurþingi, ásamt vatnsaflskostunum Árskógsvirkjun (5 MW) í Dalvíkurbyggð, Tunguárvirkjun (2 MW) í Þistilfirði og Staðarárvirkjun (1 MW) í Bakkafirði auk þróunarkosta í Eyjafjarðarsveit.

Ljóst er að umrædd styrking flutnings- og dreifikerfis hefur mikil og jákvæð áhrif á kosti félaganna sem var helsta umræðuefni fundarins. Ennfremur er ljóst að fyrirhuguð verkefni félaganna eru afar mikilvæg fyrir styrkingu kerfanna. Fyrirhugaður 33 kV jarðstrengur RARIK frá Vopnafirði til Þórshafnar mun efla til muna raforkuöryggi og möguleika til atvinnuuppbyggingar svæðisins. Ný 132 kV háspennulína Landsnets milli Kópaskers og Þórshafnar mun einnig stórauka afhendingaröryggi raforku, stuðla að atvinnuuppbyggingu og enda hvimleiða þörf eystri byggðar að notast við jarðefnaeldsneyti. Verkefni félaganna leika lykilhlutverk í þróun flutnings- og dreifikerfisins á svæðinu þar sem nýjar tekjur af flutningi væntrar orkuframleiðslu aðstoða fjárhagslega við fyrirhugaða styrkingu og geta ennfremur flýtt talsvert fyrir þeim framkvæmdum.

Sammæltust fundargestir um mikilvægi uppbyggingar svæðisins og bráðrar þarfar nýs orkuframboðs sem samnefnara verðmætasköpunar og atvinnuuppbyggingar. Hvað það varðar hvetur Framsýn ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála til að gera allt til að hraða uppbyggingu mögulegra orkuverkefna í Þingeyjarsýslum til að svara kalli atvinnulífsins. Eins og fram hefur komið á heimasíðu stéttarfélaganna er mikill áhugi meðal fjárfesta að koma að uppbyggingu á atvinnustarfsemi í Norðurþingi sem er virkilega ánægjulegt ekki síst í ljósi þess að starfsemi PCC liggur niðri.

Fundarmenn voru sammála um að fundurinn hafi verið árangurríkur í alla staði en hann fór fram í fundarsal stéttarfélaganna. Eftirtaldir sátu fundinn, Ásgeir Margeirsson, stjórnarformaður Qair Ísland, Skírnir Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri Arctic Hydro, Friðjón Þórðarson, framkvæmdastjóri Qair Ísland og Kristinn Pétursson, ráðgjafi og fyrrum alþingismaður. Frá Framsýn tóku þátt í fundinum, Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar, Aðalsteinn J. Halldórsson starfsmaður stéttarfélaganna og stjórnarmennirnir, Torfi Aðalsteinsson og Kristján M. Önundarson.

Nýjast