Jólatorgið var opnað á laugardaginn þegar ljósin voru tendruð á jólatrénu á Ráðhústorgi. Opið var frá kl. 15-18 bæði laugardag og sunnudag og verður torgið opið allar helgar fram að jólum.
Aðsókn fór fram úr björtustu vonum. Fólkið sem seldi varning og veitingar í húsunum var afar ánægð með viðtökurnar og má vera ljóst að Jólatorgið er komið til að vera. Húsin voru að þessu sinni átta en þau voru fjögur í fyrra þegar þessu verkefni var hleypt af stokkunum. Vonir standa til þess að húsin verði jafnvel enn fleiri að ári.
„Við erum auðvitað í skýjunum yfir mætingunni og viðtökunum,“ segir Elísabet Ögn Jóhannsdóttir, verkefnastjóri menningarmála hjá Akureyrarbæ. „Það var mjög margt fólk á ferli bæði á laugardaginn og sunnudaginn og má ljóst vera að Jólatorgið á Akureyri er komið til að vera. Vonandi verður það bara ennþá stærra á næsta ári.“
Allt um dagskrána næstu helgar á Jólatorg.is.
Akureyri.is sagði frá