Lokaorðið - Lífið.

Dýrleif Skjóldal skrifar
Dýrleif Skjóldal skrifar

Ég er trassi í eðli mínu og þakka guði fyrir það! Vegna þessa eiginleika er ég frekar drusluleg í háttum. Ég hef lítinn áhuga á tískufatnaði, endurnýjun húsgagna, bíla, tiltekt eða rétta mataræðinu. Allt sem talið var að prýða mætti góða húsmóður hér í eina tíð er ekki minn tebolli. 

Ég er hinsvegar óheyrilega góð í að safna að mér drasli sem ég er viss um að fá not fyrir einhvern tíma. Ég tel mig líka hafa gott auga fyrir fallegum hlutum sem flestir koma beint úr náttúrunni. Og svo eru það allir hlutirnir sem ég hef eignast vegna þess að ég þarf að styrkja gott málefni eða hefnfengið að gjöf frá litlum vini. Ég á mjög erfitt með að grisja/ henda þessu og þegar ég hef svo búið í sömu íbúðinni í meira en 40 ár þá er orðið frekar stutt bil á milli hlutanna hjá mér.

All flesta daga tek ég ekkert eftir þessu, sest bara í minn góða stól að loknum vinnudegi og sinni sjónvarpsáhorfi og dunda mér í tölvunni eða les bók eins og hver annar letingi. En stundum hef ég áhyggjur af þessu, einkum fyrir jól. Það er nefnilega þannig að ég var alin upp á tímum hinnar fullkomnu húsmóður þar sem allt var þrifið í hólf og gólf, sautján sortir bakaðar og allt heimilisfólkið fékk nýja spjör og allt og allir litu óaðfinnanlega út. Eða svoleiðis var og er það a.m.k.í tímaritum og auglýsingum í sjónvarpi.

Og þegar púkinn á fjósbitanum mínum byrjar að hvísla að mér, taktu þér nú tak, hentu þessu drasli, lagaðu til, hreinsaðu, skúraðu, bónaðu, bakaðu, málaðu, kauptu, kauptu, kauptu…..

Þá veit ég að jólin nálgast.

Dilla

Nýjast