Vísindamaður mánaðarins: Hilal Sen

Hilal með eiginmanni sínum, Dr. Mehmet Harma, prófessor við Sálfræðideild HA      Myndir  Aðsendar
Hilal með eiginmanni sínum, Dr. Mehmet Harma, prófessor við Sálfræðideild HA Myndir Aðsendar

Vísindafólkið okkar er mánaðarleg kynning á vísindafólkinu okkar. Dr. Hilal Sen, dósent við Sálfræðideild, er vísindamanneskja nóvembermánaðar.

Þroskasálfræðingurinn Hilal Sen flutti úr 20 milljón manna borg í 20 þúsund manna bæ og segir að hún hafi verið vel undirbúin fyrir breytinguna. „Ég er ein af þeim heppnu sem vinn við það sem ég elska á stað þar sem ég er ánægð og get kallað heimili. Hér fæ ég áfram að rannsaka heillandi viðfangsefni, hvernig við vöxum, lærum og verðum að þeim sem við erum,“ segir hún brosandi.

Frá Svartahafi til norðurslóða

Hilal fæddist í Trabzon, vindasamri strandsjávarborg í norðausturhluta Tyrklands, við landamæri Georgíu. „Veðrið þar breytist á fimm mínútna fresti og kannski er það skýringin á því hversu auðveldlega ég aðlagaðist Íslandi,“ segir hún hlæjandi. Hún flutti talsvert á milli staða í Tyrklandi vegna vinnu föður síns, hún bjó meðal annars í Trabzon í norðaustri, Edirne í norðvestri, Istanbúl á mörkum Evrópu og Asíu, og síðan á sólríkum sjávarbökkum Izmir og Antalya.

„Að vera stöðugt á flakki gerði mig oft rótlausa sem barn,“ rifjar hún upp, „en síðar áttaði ég mig á því að það kenndi mér sveigjanleika og hvernig ég sjálf get lært að tilheyra samfélagi.“

Hún stundaði nám í sálfræði í Ankara, við háskóla sem er einn sá virkasti og líflegasti þegar kemur að pólitískum háskólasamfélögum Tyrklands. Upphaflega ætlaði hún sér að verða klínískur barnasálfræðingur en breytti um stefnu eftir ákveðna lífsreynslu í starfsnámi. „Ég var að ræða við ömmu sem sagði mér hörmulega sögu og ég gat ekki hætt að gráta með henni,“ segir hún. „Þá áttaði ég mig á því að klínísk vinna hentaði mér ekki. Mig langaði að rannsaka börn og aðstæður þeirra en á annan hátt.“

Þessi ákvörðun leiddi hana í Koç-háskóla í Istanbúl þar sem hún lauk meistaraprófi og doktorsprófi í þroskasálfræði. Árið 2022, eftir margra ára kennslu og rannsóknir í Istanbúl, ákvað hún að taka skrefið norður á bóginn og fara til Háskólans á Akureyri.

„Það var ekki tilviljun,“ segir Hilal, „þegar ég var í menntaskóla sá ég Dancer in the Dark á lítilli kvikmyndahátíð í Izmir. Myndin hreyfði við mér og sérstaklega frammistaða Bjarkar. Ég byrjaði að lesa allt um hana og Ísland og ég man að ég hugsaði: Einn daginn mun ég búa þarna. Augljóslega var það meira en bara hugsun!“

Kennir sálfræði sem hluta af daglegu lífi

Við Háskólann á Akureyri kennir Hilal meðal annars þroska-, fullorðins- og uppeldissálfræði, námskeið sem fjalla um mismunandi þroskastig fólks.

Í kennslu leggur hún áherslu á að tengja kenningar við raunveruleg dæmi. „Ég elska að tengja það sem ég kenni við daglegt líf. Stundum sé ég bara setningu á plakati og hugsa: Já! Þetta er fullkomið dæmi um það sem við ræddum í tíma!“

Hilal telur að kennsla eigi að vera lifandi. „Góð kennsla skiptir mig miklu máli og ég nýt hennar í alvöru. Það veitir mér gleði að byggja brýr milli fræðanna og daglegs lífs, jafnvel þegar ég er að kenna mjög tæknilegt efni. Ég nýt þess að færa sálfræðikenningar til lífs með kvikmyndum, heimildarmyndum, skáldsögum eða dæmum úr dægurmenningu. Ég á meira að segja sérstaka möppu þar sem ég safna hugmyndum sem heitir Nota þetta efni þegar þú kennir þetta næst.“ Hún segir að margt í kennslu hafi hún lært af því hvernig hún telur að eigi ekki að kenna. „Þegar ég var að læra sá ég marga kennara sem höfðu misst áhugann,“ segir hún og segir að hún miði við að vera öðruvísi kennari.

Hilal segir að gleðin við að kenna birtist oft þegar hún á síst von á því. „Stundum stoppar fyrrverandi nemandi mig og segir mér frá því að ég hafi kennt honum og að það hafi skipt viðkomandi miklu. Slík augnablik gefa gott í hjartað og ég fer að sofa sátt.“

Kennslan er þó ekki alltaf auðveld, segir hún. „Sumir nemendur vilja að allt sé einfalt, matreitt og tilbúið til notkunar. Það er ekki tilgangur háskólanáms. Það snýst um að læra að hugsa gagnrýnið, lesa mikið, kafa ofan í efni og þola óvissu.“ Hún leggur til að allir háskólar ættu að bjóða upp á grunnáfanga um háskólalíf og fræðilega vinnu, „ég tel að það myndi bæta upplifun bæði nemenda og kennara.“

Siðferðisþróun, forvitni og ójöfnuður

Sem þroskasálfræðingur rannsakar Hilal hvernig manneskjan þroskast yfir ævina með sérstakri áherslu á barnæsku, sérstaklega frá 0–12 ára aldri.

„Ég skipti rannsóknum mínum í tvo meginflokka,“ útskýrir hún. „Annar er siðferðisþróun barna, hvernig þau meta rétt og rangt, hvernig þau hjálpa öðrum, hvenær þau skrökva og hvernig þau hugsa um sanngirni.“

Hinn er forvitni barna og hvernig þau kanna heiminn. „Við vitum að börn eru náttúrulega forvitin en við vitum enn ekki til fulls hvaða hlutverki forvitnin þjónar eða hvenær börn eru raunverulega að kanna hluti,“ segir hún. Hennar rannsóknir skoða hvernig athygli, uppeldi og menning hafa áhrif á þessa hegðun.

„Þegar ég er spurð að því hvað sé brýnast að rannsaka er oft hægt að horfa á efnivið ráðstefna á sviði sálfræðinnar. Til dæmis núna í ár á stórri evrópskri ráðstefnu í þroskasálfræði var skýrt að tvö málefni væri brýnt að kanna, fordóma og mismunun gagnvart innflytjendum á barnsaldri og tilfinningalegar áskoranir barna á flótta. Ráðstefnan varpaði ljósi á hvað er efst í huga þroskasálfræðinga þvert á Evrópu og það er vel skiljanlegt hvers vegna það er.“

Hún tiltekur annað rannsóknarsvið sem einnig snertir Ísland, sem er vaxandi tekjuójöfnuður og aukið bil samfélagshópa og þá sérstaklega fátækt barna. „Fyrir börn þýðir fátækt ekki aðeins minna aðgengi að efnislegum hlutum. Það felur í sér líka streitu á heimili, færri tækifæri til að kanna heiminn og að læra ásamt minni aðgangi að stuðningsumhverfi.“

„Við vitum að fyrstu ár ævinnar móta langtímaþróun barna. En við þurfum mun fleiri rannsóknir til að skilja hvernig efnahagslegt ójafnræði hefur áhrif á mismunandi þætti þroskans og hvaða þættir hjálpa börnum að dafna þrátt fyrir slíkar áskoranir.“ Hilal segir skilaboðin skýr, „þessi þróun kallar á stefnumótun byggða á gögnum. Þroskasálfræði getur lagt mikið af mörkum svo að til verði stefna sem tryggir að öll börn, óháð bakgrunni, fái að blómstra.“

Geymir endinn ef bókin er of góð

Þegar Hilal er ekki að kenna eða rannsaka sekkur hún sér í bækur. „Ég er algjör bókaunnandi,“ viðurkennir hún, „ef mér líkar bók verð ég eiginlega leið þegar hún klárast og stundum fresta ég því að lesa síðustu blaðsíðurnar.“ Uppáhaldshöfundur hennar er José Saramago og hún á sífellt stækkandi safn heimsbókmennta.

„Ég er líka svolítið leikræn, ég elska að leika, upplifa heim persóna og herma eftir þeim,“ segir hún brosandi þegar við kveðjumst þar sem hún er líklega á leið með eiginmanni sínum og barni í Lystigarðinn eða á kaffihús með bók í hönd.

Þroskasálfræðingurinn Hilal Sen 

Í háskólanum í Istanbul

Hilal með fjölskyldunni sinni á Neskaupsstað

 

 

Nýjast