Bæjarráð Akureyrar hefur áhyggjur af þróun endurhæfingarþjónustu á svæðinu sem og þeim mönnunarvanda sem virðist blasa við í heilbrigðiskerfinu. Hefur bæjarráð óskað eftir samtali við fulltrúa Sjúkrahússins á Akureyri og Háskólans á Akureyri vegna málsins.
Bæjarráð fjallaði nýverið um erindi frá öldungaráði og sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar sem sent var til heilbrigðisráðherra, Ölmu D. Möller, en það fjallaði um stöðu starfsemi á Kristnesspítala og aðgengi að endurhæfingarþjónustu. Frá áramótum er gert ráð fyrir að starfsemin breytist í dag- og fimm daga endurhæfingardeild, sólarhringsvakt verði því eingöngu í boði fimm daga vikunnar og lokað um helgar.
Landsbyggðarfólk kemst ekki að
„Þetta hefur í för með sér að þeir einstaklingar sem ekki geta farið heim um helgar eiga jafnvel ekki lengur raunhæfan aðgang að þjónustunni. Þeir munu í staðinn lenda á bráðaþjónustu spítalanna þar sem hvorki er rými, mannskapur né viðeigandi aðstaða til endurhæfingar,“ segir í bókun öldrunarráðs í Eyjafjarðarsveit. Ráðið segir að viðvarandi mönnunarvandi á Kristnesi sé helsta ástæða fyrirhugaðra breytinga, ekki hafi gengið að manna auglýstar stöður.
„Reynslan sýnir jafnframt að fólk af landsbyggðinni kemst almennt ekki að í endurhæfingu á viðeigandi heilbrigðisstofnunum annars staðar á landinu þar sem pláss skortir fyrir fleiri skjólstæðinga,“ segir ennfremur og á það bent að rekstur Reykjalundar sé brothættur. Ráðið lýsi því miklum áhyggjum yfir þessari þróun og sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar tekur heilshugar undir það, sem og bæjarráð Akureyrar.
Leiðir til enn þyngri heilbrigðisúrræða
Fram kemur í bréfi Finns Yngva Kristinssonar sveitarstjóra Eyjafjarðarsveitar að brýnt sé að heilbrigðisyfirvöld bregðist tafarlaust við og tryggi að aðgengi að endurhæfingarþjónustu á landinu öllu verði ekki skert, heldur eflt, með öllum þeim ráðum sem tiltæk eru. Sérstaklega mikilvægt er að tryggja að íbúar hafi raunverulegt aðgengi að viðeigandi endurhæfingu án þess að þurfa að reiða sig á bráðaþjónustu sem hvorki er hönnuð né mönnuð til slíks verkefnis
„Ljóst er að ef einstaklingar sem þurfa á endurhæfingu að halda fá ekki viðeigandi þjónustu, hrakar heilsu þeirra, sama á hvaða aldri þeir eru, sem leiðir til enn þyngri heilbrigðisúrræða, verri lífsgæða, aukins álags á fjölskyldur og skerts möguleika til atvinnuþátttöku. Afleiðingar þess að ekki séu til staðar fullnægjandi úrræði til endurhæfingar munu að okkar mati hafa alvarleg áhrif á heilsu þjóðarinnar til lengri tíma litið.“
Áður en festist í óleysanlegum hnút
Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar og öldungaráð hvetja heilbrigðisráðherra eindregið til að grípa til aðgerða áður en málaflokkurinn festist í óleysanlegum hnút. Markmiðið þarf að vera að tryggja öryggi, heilsu og lífsgæði íbúa sem þurfa á endurhæfingu að halda og útskrifa þá endurhæfða frá úrræðinu og með því styðja við sjálfbæra og ábyrga nýtingu heilbrigðiskerfisins.