Föstudagskvöldið 5. desember næstkomandi munu Umskiptingar í samstarfi við Leikfélag Akureyrar frumsýna JÓLAGLÖGG í Samkomuhúsinu á Akureyri. Um er að ræða glænýja grínsýningu um jólin og allt ruglið sem getur fylgt þeim. Þetta er jólasýning fyrir fullorðna sem enginn má missa af.
Jólaglögg er sketsasýning úr smiðju Umskiptinga og tekur á skrítnum jólahefðum, yfirþyrmandi jólalögum, gjafastressi og öðrum uppákomum sem flestir geta tengt við. Hver kannast ekki við panikið yfir að gera allt „rétt“ um jólin eða finna réttu gjafirnar eða bara upplifa jólastressið í undirbúningi jólanna.
„Flestir ættu að kannast við aðstæðurnar sem dregnar eru upp en við setjum nýtt tvist á þær sem þið hafið kannski aldrei hugleitt. Við lofum miklum hlátri og óvæntum uppákomum sem ætti að hjálpa til við að slaka á stressinu fyrir jól rétt eins og góður bolli af jólaglöggi. Það er varla hægt að finna meiri stemningsdrykk en gott jólaglögg á aðventunni í góðra vinahópi. Uppskriftin sem Umskiptingar bjóða upp á er skotheld inn í jólahátíðina,“ segir í tilkynningu frá leikhópnum.
„Það eru búin að vera jól hjá okkur frá því í sumar en strax í vor þegar ljóst var að af þessu samstarfi yrði var byrjað að undirbúa. Nokkrir dagar í Leifshúsum í lok maí markaði upphafið en þá komum við nokkur saman og veltum upp alls konar hugmyndum um jólin og hvað ætti að vera í slíkri sýningu. Síðan hefur handritið þróast jafnt og þétt eftir því sem leið á haustið og hefur vissulega tekið miklum breytingum frá fyrstu drögum,“ segir Jenný Lára en hún er leikstjóri sýningarinnar.
Langflestir leikarar sýningarinnar eru með fasta búsetu á Akureyri eða nágrenni. Leikarar í sýningunni eru Bjarklind Ásta Brynjólfsdóttir, Diana Sus, Fanney Valsdóttir, Hjalti Rúnar Jónsson, Kolbrún Lilja Guðnadóttir, Margrét Sverrisdóttir, Sindri Swan og Vigdís Halla Birgisdóttir.