Sú sem þetta skrifar hefur búið í fjölbýli síðasta rúmlega áratuginn. Þar hefur gilt sú regla sem víðast hvar gildir í fjölbýlishúsum að allt dýrahald var bannað. Sú staða kom til dæmis upp að fólk sem keypt hafði íbúð í húsinu og átti “fullorðinn” hund, sá sig knúið til að selja strax aftur þar sem leyfi fékkst ekki til að halda hundinn þar til hans dagar yrðu taldir.
Þetta þótti mér ansi harkalegt hafandi áður átt bæði hund og kött og þá, búandi í húsnæði sem leyfði slíkt. Þegar ég eignaðist hundinn á sínum tíma bjó ég reyndar í raðhúsi sem samkvæmt mannvirkjalögum telst fjölbýli. Ég þurfti því að fá samþykki annara eiganda í lengjunni til að halda hundinn. Um var að ræða sex íbúða hús og fannst mér umhugsunarefni ef það hefði gerst að einn eigandi hefði neitað, búandi fjær mér en þeir sem þá bjuggu í næsta húsi.
En nú hafa þau undur gerst að lögunum hefur verið breytt og nú má halda gæludýr í fjölbýlishúsum án leyfis nágranna. Að vísu mega húsfélög semja reglur um umgengni og ónæði en aldrei mega þær reglur ganga það langt að þær banni alfarið dýrahaldið.
Rúmlega miðaldra kona fagnar þessum reglum og telur þær mjög tímabærar.
Sjálfsögð mannréttindi
Það að eiga gæludýr getur gefið manneskju svo ótrúlega mikið. Staðfest er, jafnvel með rannsóknum, að umgengni við dýr dregur til dæmis úr einmannaleika og eykur þannig lífsgæði. Þau eru frábær félagsskapur fyrir börn og hafa hjálpað mikið þeim sem eru með hinar ýmsu greiningar. Hundur sem þarf hreyfingu knýr þannig eiganda sinn undir bert loft og fleira gott má tína til. Ég sé fátt fallegra en eldri konu sem stundum gengur framhjá. Hún á lítinn hund sem hún talar stöðugt við á meðan þau viðra sig. Með henni gengur stundum vinkona sem keyrir sinn hund um í barnakerru. Þetta veitir þeim augljósa hamingju sem fáránlegt væri að neita þeim um vegna búsetu. Þetta eru sjálfsögð mannréttindi.
Nú er sem ég heyri í þeim sem eru þessu andsnúin; hvað með þau sem eru með ofnæmi? Á ekki að virða þjáningar þeirra? Við þau vil ég segja; ef ofnæmið er það alvarlegt að ekki sé búandi í fjölbýlishúsi þar sem hundur eða köttur býr í einni íbúð og í mesta lagi, gengur inn og út úr húsinu, þá getur viðkomandi væntanlega ekki heldur farið út í búð, tekið strætó eða farið með leigubíl því þar er viðlíka hætta á að rekast á dýrahár. Þessir einstaklingar hljóta því hvort sem er að vera á ofnæmislyfjum vegna sinna kvilla.
Ég segi því takk Inga Sæland því nú er næsta skref hjá mér að snúa upp á handlegg bóndans sem skýlt hefur sér með lagabókstafnum fram að þessu.
Höfundur er áhugamaður um almenna velferð.