Framkvæmdastjóra Akureyrarstofu hefur verið falið að fara í viðræður við Ferðamálastofu um aukna aðkomu að rekstri Upplýsingamiðstöðvar ferðamanna og boða til fundar með nágrannasveitarfélögum í Eyjafirði um endurskoðaðan samningsgrundvöll um rekstur miðstöðvarinnar. Á undanförnum árum hefur þjónusta Upplýsingamiðstöðvarinnar verið aukin og bætt ár frá ári. Á sama tíma hefur framlag Ferðamálastofu og nágrannasveitarfélaganna dregist saman.
Akureyrarbær hefur því einn kostað þessa auknu þjónustu. Upplýsingamiðstöðin er landshlutamiðstöð og hefur því skyldur við Norðurland allt og á því byggir framlag Ferðamálastofu.
Í bókun Akureyrarstofu segir að mikilvægt sé að allir hagsmunaðilar komi að því verki að bæta og auka þjónustu við ferðamenn sem fer fjölgandi ár frá ári. Gert er ráð fyrir að erlendir ferðamenn sem koma til landsins á næsta ári verði um 1,5 milljón.
-þev