Vikudagur birtir skoðanakönnun í samstarfi við RHA

Kosið verður í sveitarstjórnarkosningum laugardaginn 26. maí.
Kosið verður í sveitarstjórnarkosningum laugardaginn 26. maí.

Vikudagur og RHA, Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri hafa ákveðið að fara í samstarf varð­andi skoðanakönnun fyrir sveitarstjórnarkosningarnar á Akureyri þann 26. maí. Þar verður m.a. fylgi flokka kannað og hvaða oddvitar njóta mests trausts meðal bæjarbúa.

Fyrstu niðurstöður úr skoðanakönnuninni munu birtast í Vikudegi fimmtudaginn 10. maí nk. og svo reglulega í blaðinu fram að kosningum.
RHA hefur ákveðið að framkvæma slíkar kannanir reglulega, þar sem m.a. er mælt fylgi flokkana í bænum, traust til leiðtoga þeirra og jafnframt kanna hug bæjarbúa til ýmissa málefna eða þjónustu sem snerta íbúa bæjarins.

Sigrún Vésteinsdóttir, verkefnisstjóri hjá RHA, segir miðstöðina ávallt leggja áherslu á að vera í tengslum við sitt nærsamfélag.

„Samstarfið við Vikudag um sveitarstjórnarkosningarnar er hluti af þeirri áherslu. RHA er með þessu að efla ennfrekar tengsl Háskólans á Akureyri og samfélagsins, en það er mikilvægt að rödd bæjarbúa heyrist og að þeir geti látið í ljós skoðanir sínar,“ segir Sigrún.

Þröstur Ernir Viðarsson, ritstjóri Vikudags, segir fjölmiðla vera mikilvæga þegar kemur að kosningum. 

„Birting skoðanakönnunar er hluti af okkar viðleitni til að veita lesendum og bæjarbúum góða þjónustu,“ segir Þröstur Ernir.

Nýjast