Víkingur Heiðar frumflytur sex píanólög eftir Jón Hlöðver

Víkingur Heiðar Ólafsson og Jón Hlöðver Áskelsson settust saman við flygilinn á stóra sviðinu í Hofi…
Víkingur Heiðar Ólafsson og Jón Hlöðver Áskelsson settust saman við flygilinn á stóra sviðinu í Hofi á dögunum.

Víkingur Heiðar Ólafsson frumflytur sex píanólög eftir Jón Hlöðver Áskelsson á tónleikum í Hofi á Akureyri í byrjun febrúar næstkomandi. Auk þess flytur hann úrval glæsilegra einleiksverka og eigin útsetningar á íslensku sönglögum eftir Pál Ísólfsson, Sigvalda Kaldalóns og fleiri. Víkingur og Jón Hlöðver kynntu fyrirhugaða tónleika í Hofi á dögunum. Jón Hlöðver segir að þessi sex píanólög væru hugsuð sem svolítið krydd á íslenska píanóréttaborðið.

“Von mín er sú að lögin verði ungum píanistum áhugaverð tilbreyting við það fjölbreytta efni, sem í boði er. Ég hafði sérstaklega í huga unga upprennandi píanónemendur við gamla skólannminn, Tónlistarskólann á Akureyri, en á árinu 2010 flutti skólinn í nýtt og glæsileg húsakynni í Hofi. Það voru vissulega ein merkustu tímamót í sögu skólans og gerir mitt verk ekkert tilkall til að setjast í slíkt sæti. Mér er mikill heiður af því að Víkingur Heiðar frumflytji píanólögin og tileinka ég honum verkið ásamt framsæknum píanónemendum við Tónlistarskólann á Akureyri. Von mín er sú að réttur þessi megi þeim vel bragðast. Eins kann ég forsvarsmönnum skólans míns bestu þakkir fyrir að annast og kosta útgáfuna,” segir Jón Hlöðver.

Víkingur Heiðar segir að verk Jóns séu gullfalleg og honum þykir vænt um þessa tileinkun. “Hann sendi mér verkin í tölvupósti, sem mér leist vel og við ákváðum í framhaldinu að setja á þessa einleiksleikstónleika á. Það er líka mjög gaman að spila einleikstónleika í þessum sal í Hofi og er allt öðru vísi en að spila með hljómsveit eins og ég gerði á opnunarhelginni. Þetta er skemmtilegt tilefni og í raun tónleikar til heiðurs því að verkin koma út á nótum þennan sama dag og tónleikarnir fara fram og jafnframt til heiðurs Jóni fyrir hans starf,” sagði Víkingur. 

Forsala í gangi

Tónlistarskólinn á Akureyri hefur tekið það að sér að sjá um útgáfuna og er Daníel Þorsteinsson að vinna að undirbúningi þess fyrir hönd skólans. Jón Hlöðver sagði að það væri hörgull á íslensku efni fyrir þá sem eru lengra komnir á píanóið. “Ég leit svo á þetta yrði hvatning m.a. fyrir framúrskarandi nemendur og sjálfum mér vonandi til einhvers vegsauka.”

Víkingur sagði skemmtilegt að gefa verkin út og að taka tónleikana upp, þannig að nemendurnir geti haft flutninginn til hliðsjónar. “Það er oft með nýja tónlist, að ef  nemendurnir eru ekki þeim mun meiri landkönnuðir í sér, getur verið gott fyrir þá að hafa einhvers konar viðmið.”

Tónleikarnir í Hofi verða haldnir þann 5. febrúar nk., forsala er hafin og stendur til 6. janúar nk. Miðaverð í forsölu er 3.900 kr. en fullt verð 4.900 kr.

 

 

Nýjast