Hann byrjaði að velta hugmyndinni fyrir sér þegar árið 2003, en hún er nú orðin að veruleika og skapar 5 störf á Súðavík. „Ég ræddi þessa hugmynd á sínum tíma við föður minn og systur," segir Þorleifur, en þau eru bæjarbúum að góðu kunn, Ágúst Þorleifsson fyrrverandi héraðsdýralæknir og Elfa dýralæknir á Akureyri. Þorleifur fékk góð ráð frá ættmennum sínum sem og frá Braga Líndal Ólafssyni fóðurfræðingi sem vann ötullega að vöruþróun og framleiðsluferlinu. Og nú eftir nokkurra ára undirbúning og þróunarstarf er framleiðsla hafin af fullum krafti og viðtökur góðar sem fyrr segir.
Þorleifur kveðst leggja höfuðáherslu á að nota einungis hreinar náttúrulega afurðir í fóðrið og lætur uppfyllingar og aukaefni lönd og leið. Murr er í samstarfi við tvö norðlensk fyrirtæki, Norðlenska á Akureyri og SHA-afurðir á Blönduósi, en frá þeim fær félagið hráefni í gæludýrafóður sitt, hráefni sem áður var ekki nýtt. „Ávinningur af þessari framleiðslu er margvíslegur," segir Þorleifur og bendir m.a. á nú sé framleiddur íslenskur gæludýramatur í háum gæðaflokki, það spari gjaldeyri vegna minni innflutnings, betri nýting fáist í kjötframleiðslunni, úrgangur verði minni og ný störf hafi orðið til. Allt muni þetta svo vonandi skila sér að lokum til grunnframleiðendanna, bænda.
Murr kattamatur er framleiddur í sérútbúnum pokum í skömmtum sem reiknaðir hafa verið út frá fóðurþörf gæludýranna, en ítarlega upplýsingar fylgja með á umbúðum og auðvelda eigendum dýranna að gefa þeim rétt magn. Bónus er stærsti söluaðili Murr fóðurs en fjöldi annarra verslana býður einnig upp á þennan alíslenska gæludýramat.