Þjónustuskrifstofa Sparisjóðs Höfðhverfinga á Akureyri var opnuð þann 6. janúar sl. á neðstu hæðinni á Glerárgötu 36. Til að byrja með voru tveir starfsmenn á þjónustuskrifstofunni og átti framhaldið að ráðast af viðbrögðum Akureyringa og nærsveitarmanna. Mikið hefur verið að gera frá opnun þjónustuskrifstofunnar, áhugi fólks varð strax mikill og hefur viðskiptavinum Sparisjóðsins fjölgað ört. Starfsmenn á Akureyri eru nú orðnir fjórir og þjónustuskrifstofan orðin að fullgildu útibúi eftir að bætt var við gjaldkeraþjónustu sem ekki var lagt af stað með í upphafi. Útibúið veitir því alla almenna bankaþjónustu í dag. Áhersla er lögð á að veita persónulega og vandaða þjónustu. Jenný Jóakimsdóttir sparisjóðsstjóri segir á vef Grýtubakkahrepps að sannarlega sé pláss fyrir Sparisjóð Höfðhverfinga á Akureyri en hann er eini sparisjóðurinn í bænum og þjónustar einnig viðskiptavini annarra sparisjóða. Sparisjóður Höfhverfinga var stofnaður 1879 og er hann næst elsta bankastofnun landsins. Sparisjóðurinn hefur alla tíð verið lítill og í eigu heimamanna. Nú hefur orðið breyting á eignarhaldi Sparisjóðsins og nýir stofnfjáreigendur víðar af Eyjafjarðarsvæðinu hafa bæst í hópinn. Stærsti eigandi Sparisjóðs Höfðhverfinga nú er KEA. Í Sparisjóði Höfðhverfinga á Grenivík eru þrír starfsmenn en nú þarf að fjölga stöðugildum þar vegna aukinna verkefna. Sparisjóðurinn auglýsir eftir starfsmanni í fullt starf á Grenivík frá 15. maí nk., segir ennfremur á vef Grýtubakkahrepps.