Viðræður við erlent fyrirtæki um nýja verksmiðju

„Við höfum í nógu að snúast og verkefnin eru mörg þó þau hafi breyst svolítið frá því sem var fyrir um ári eða svo," segir Magnús Þór Ásgeirsson framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar.  Unnið er að fjölda verkefna, en Magnús kynnti þau á fundi bæjarráðs nýverið.   

Meðal verkefna sem unnið er að má nefna viðræður við erlent fyrirtæki um nýja verksmiðju á svæðinu, en þar er um að ræða uppbyggingu orkufreks hátæknifyrirtækis, en Magnús segir að félagið sé ávallt í sambandi við einhver fyrirtæki sem það telji að hafi ávinning af að staðsetja sig á svæðinu. „Þetta er langt og viðkvæmt ferli eins og sannaðist með Becromal þannig að við viljum sem minnst um málið segja á þessari stundu annað en að þetta er ekki eins orkukræft verkefni og aflþynnuverksmiðjan en kann að skapa jafn mörg störf eða fleiri," segir Magnús.

Sem dæmi af öðrum verkefnum sem unnið er að á vegum félagsins um þessar mundir má nefna að í samstarfi við Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga er unnið að því að reist verði álver á Norðurlandi og hvernig hámarka megi áhrif þess á starfssvæðinu. Þá er veitt aðstoð og  eftirfylgni vegna uppsetningar verksmiðju Becromal í Krossanesi, verið er að skoða möguleika á uppsetningu á gagnaveri og þá veitir félagið aðstoð vegna verkefnis Orkeyjar um öflun hráefnis til framleiðslu á lífdísil.  Unnið er að verkefnum á sviði samgöngumála, m.a. styttingu vega, beinar siglingar en slíkt hefði lækkun flutningskostnaðar í för með sér.  Þá má nefna að í samstarfi við fleiri aðila er unnið að málefnum er varða millilandaflug, m.a. með heilsársflug í huga og fjölgun viðkomustaða.

Verið er að kanna möguelika á að koma upp aðstöðu til útgerðar sportveiðiferða, starfandi fyrirtækjum er veitt aðstoð við að hefja nýja framleiðslu, sem og að aðstoða smærri fyrirtæki við að koma sér á markað erlendis. Loks má nefna að unnið er að því að markaðssetja Eyjafjarðarsvæðið gagnvart þjónustu við olíuleit, námuvinnslu og skipasiglingum. Að auki tekur félagið þátt í verkefnum sem tengjast Vaxtarsamningi Eyjafjarðar en í liðnum mánuði var úthlutað tæplega 7,5 milljónum króna til 9 verkefna.

Nýjast