SNAM notar Boeing 737-800 þotu frá SAS sem er sérútbúin til slíks verkefnis þegar þess er óskað. Flugvélin er þá útbúin fyrir 12 legusjúklinga þar af 6 gjörgæslusjúklinga auk 20 sæta fyrir minna slasaða sjúklinga og eða aðstandendur. Auk þess eru um borð áhöfn flugvélarinnar og heilbrigðisstarfsfólk (læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraflutningamaður).
Eðli málsins samkvæmt krefst slík þjónusta æfingu og samhæfingu áhafnar og óskuðu þeir eftir því að fá að lenda á Akureyri og vinna þetta í samvinnu við Slökkvilið Akureyrar og Sjúkrahúsið á Akureyri (FSA), segir í fréttatilkynningu. Þotan lendir á Akureyrarflugvelli á laugardagsmorgun klukkan 07:15. Slökkvilið Akureyrar og Björgunarsveitin Súlur taka þátt í æfingunni varðandi flutning sjúklinganna milli sjúkrahúss og flugvallar. Gjörgæsludeild og Slysa- og bráðamóttaka FSA taka þátt í þessari æfingu eins og um hópslys væri að ræða. Hópslysaáætlunin verður því virkjuð að hluta. Þá koma einnig að þessari æfingu Sjúkraflutningaskólinn, Akureyrardeild Rauða krossins, starfsmenn flugvallar, lögregla og fleiri.