Jólin í Einholtinu þar sem fjölskylduhefðir lifa

Sigrún og Geiri (Sigurgeir Bragason) tilbúin í árlegt skötuboð á Þorláksmessu.
Sigrún og Geiri (Sigurgeir Bragason) tilbúin í árlegt skötuboð á Þorláksmessu.

Í Einholti á Akureyri býr sannkölluð jólafjölskylda. Jólaandinn hefur fylgt heimilinu árum saman og gert það að litríkum og hlýjum heimkynnum þar sem rótgrónar hefðir, samvera og ilmandi jólamatur mynda ómissandi hluta hátíðarinnar.

Sigrún Elva Briem, húsmóðir á heimilinu, segir að jólin hafi alltaf verið hennar uppáhaldstími ársins. Tími sem hún leggur sig af heilum hug fram um að gera notalegan, hlýjan og eftirminnilegan fyrir alla fjölskyldumeðlimi.

Undirbúningur hefst snemma

Í Einholtinu hefst jólaandinn löngu fyrir aðventu. Í nóvember byrja þau að huga að skreytingum. Jólaljósin fara fyrst upp af öllu jólaskrautinu.

„Við byrjum á fyrstu jólaljósunum í nóvember. Það er eitthvað við það þegar fyrsta ljósið er komið upp sem fær mann til að slaka á og hlakka til,” segir Sigrún.

Heimilið er síðan skreytt í sameiningu. Fjölskyldan finnur sér dag þar sem allir komast til að setja upp jólaljósin sem eru orðin nokkur eftir mörg ár af því að safna ljósum.

„Við förum öll út saman, skreytum og gerum okkur glaðan dag. Svo endum við inni með heitt kakó og kræsingar. Þetta hefur alltaf verið virkilega notaleg stund,” segir hún.

Innanhúss fer allt venjulegt skraut í geymslu og jólaskrautið tekur við; ljós, skreytingar og minningar sem fylgja hverjum hlut. „Við erum rosalega hrifin af gamla skrautinu, því sem ég fékk jafnvel frá foreldrum mínum. Enda fylgja því miklar minningar.“

Fjölskyldan leggur mikinn metnað í skreytingarnar

Þorláksmessuskatan – Hefð sem hefur fylgt fjölskyldunni lengi”

Ein mikilvægasta hefðin á heimilinu er skötuboðið á Þorláksmessu. Sigrún segir að tengdaforeldrar hennar hafi um árabil haldið skötuboð fyrir alla í götunni. „Það var alltaf mikil gleði, skemmtilegar samræður og yndisleg stemmning, þó lyktin væri kannski ekki sú ljúfasta í byrjun,” segir hún hlæjandi.

Þegar tengdapabbi hennar flutti svo aftur til Ólafsfjarðar var ákveðið að þau hjónin myndu taka við boðinu.
„Við byrjum snemma að undirbúa, allir fá sitt hlutverk eins og barnabörnin sem sjá um að leggja á borð. Þetta er alveg jafn mikil stemmning í dag og þegar stelpurnar okkar voru litlar.”

Fjölskyldan klæðir sig síðan í jólapeysur eða búninga og gleðin er eins og ein samfelld stund.
„Geiri sér um það að salta fisk fyrir þá sem þora ekki í skötuna. Hann klæðir sig vanalega upp í einangrunargalla og sýður skötuna úti í bílskúr.“

Þorláksmessupizzan óvænt hefð

Þrátt fyrir skötuna á borði hefur ein önnur, óhefðbundnari hefð orðið ómissandi á Þorláksmessu. En það er Greifapizzan.

Sigrún útskýrir að eiginmaður hennar, sem er sjómaður, hafi oft rétt náð í land fyrir jól. „Ég geymdi þá að kaupa síðustu gjafirnar og þegar búið var að setja jólasængurverin á rúmin, fara í jólabaðið og setja hangikjötið í pott, fórum við í að kaupa gjafirnar. Á meðan fengu stelpurnar Greifa-pizzu og horfðu á jólamynd. Þessi rólega stund varð að hefð sem þær halda í enn í dag,” segir hún brosandi.

Hnotubrjótasafnið hefð sem óx úr einni hugmynd

Ein skemmtilegasta jólahefðin á heimilinu er hnotubrjótasafnið sem hefur vaxið og dafnað í gegnum árin.

„Við fórum öll saman í Jólahúsið og maðurinn minn valdi einn hnotubrjót. Árið eftir gerðum við þetta að hefð. Við drögum nafn úr skál og sá sem dregst fær að velja hnotubrjótinn það árið,” segir Sigrún.

Safnið er nú orðið myndarlegt, eða yfir þrjátíu hnotubrjótar og vekur jafnan athygli þeirra sem koma í heimsókn. Það er litríkt, fjölbreytt og býr yfir persónulegum sögum, einn fyrir hvert ár.

Aðfangadagur – hlýja, ró og samvera

Aðfangadagur í Einholtinu er dagur kærleika og hlýju. Um morguninn hefur Kertasníkir kíkt í heimsókn og skilið eitthvað skemmtilegt eftir í skó fjölskyldumeðlima og ævinlega kartöflu í skó eiginmannsins, til mikillar kátínu allra.

„Stelpurnar höfðu alltaf rosalega gaman af þessu, að pabbi þeirra fengi kartöflu í skóinn. En núna þegar þær eru orðnar fullorðnar fá barnabörnin að skemmta sér yfir þessu.

Þegar við erum öll hæfilega vöknuð hafa jólasveinarnir frá Súlum bankað upp á. Æðisleg hefð hjá björgunarsveitinni sem við höfum fengið að taka þátt í með þeim í fjöldamörg ár.“

Njóta og taka því rólega

Um hádegisbil er borðaður möndlugrautur. „Það er alltaf mitt hlutverk að fela möndluna og svo er mikil spenna hver fær möndluna, enda mikið keppnisfólk í fjölskyldunni,” segir hún.

Síðdegis fer fjölskyldan saman í kirkjugarðinn áður en kvöldundirbúningurinn hefst á fullu. „Þegar kirkjuklukkurnar slá sex setjumst við niður og njótum matarins. Okkar regla hefur alltaf verið að njóta og taka því rólega. Jólin snúast fyrir okkur fyrst og fremst um samveru,” segir hún.

 


Díana Marín Sigurgeirsdóttir/DMS

 

Greinarhöfundur er nemi á 2. ári í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri (HA). Þessi grein er hluti af lokaverkefni í áfanganum, samkvæmt samningi milli Vikublaðsins og HA.

Nýjast