Sigurður Bjarnason í Grímsey segir að svartfugli hafi verið að fjölga mikið í eynni síðustu ár. Sjálfur hefur hann fylgst með þróuninni undanfarna áratugi því hann hefur stundað bjargsig í Grímsey í 40 ár og sl. vor tíndi hann m.a. um 2000 svartfuglsegg. Það er enginn heimamaður að tína svartfuglsegg og selja. Menn eru að tína fyrir sjálfa sig og til að gefa vinum og vandamönnum og maður hefur eignast marga vini út á svartfuglsegg.
Sem dæmi étur einn góður vinurminn, sem þykir þau góð, um 100 egg á hverju vori en þá fer nú kólesterolið úr böndunum, þannig að það er allt gott í hófi í þessu eins og öðru, segir Sigurður. Sjálfur borðar hann ekki nema eitt og eitt svartfluglsegg. En ég hef enn svo gaman af því að síga og tína egg.
Sigurður segir að ekki sé ástæða til að banna eggjatínslu eða veiðar á svartfugli í og við Grímsey en hins vegar sé full ástæða til að fylgjast með t.d. lundaveiðinni. Fólk sem ekki fær lunda fyrir sunnan kemur til með að sækjast eftir lunda hingað og sumir eru að veiða fyrir sig sjálfa og líka til að selja. Það er ekki auðvelt að hafa stjórn á þessu þar sem ríkið á svo stóran hluta lands hér í Grímsey. Við Grímseyingar teljum að þessi friðun sem talað er um í þessu frumvarpi sé ekki tímabær þar sem að öllum ber saman um að fugl sé alltaf að aukast hér og virðist hafa það gott, með nóg af æti. Eggjataka og fuglaveiðar eru mörgum sinnum minni en var á árum áður þegar margir seldu hér bæði egg og fugl til að drýgja tekjur sínar. Við Grímseyingar komum til með að mótmæla þessu harðlega. sagði Sigurður að lokum.
Einn stofn af hverri tegund
Eins og fram hefur komið, leggur starfsfhópur sem umhverfisráðherra skipaði, m.a. til að fimm tegundir sjófugla af svartfuglaætt verði friðaðar fyrir öllum veiðum og nýtingu næstu fimm árin. Starfshópnum var falið aðgeratillögur um aukna verndun og aðgerðir sem stuðlað geti að endurreisn stofnanna, þ.m.t. um eggjatínslu. Fjallaði hann um fimm tegundir svartfugla, þ.e. álku, langvíu, stuttnefju, lunda og teistu. Í skýrslu sinni leggur starfshópurinn áherslu á að hér við land sé einn stofn af hverri þessara tegunda þannig að staðbundin áhrif og breytingar hafa áhrif á um allt land og á viðkomandi stofn hér við land. Lagt er til að breytingar verði gerðar á veiðikortakerfinu þannig að veiðikort þurfi til allrar nýtingar villtra fugla, m.a. eggjatínslu. Einnig að bann við skotveiðum við fuglabjörg verði fært úr 500 metra í 2.000 metra fjarlægð frá björgunum.
Á fundi sínum í vikunni samþykkti ríkisstjórnin að umhverfisráðherra undirbúi frumvarp til breytinga á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum á þann veg að ráðherra verði framvegis heimilt að setja í reglugerð ákvæði um stjórnun hlunnindanýtingar. Slík lagabreyting sé nauðsynleg forsenda þess að hægt verði að friða umræddar sjófuglategundir fyrir veiðum með það að markmiði að endurreisa viðkomandi stofna og treysta sjálfbæra nýtingu þeirra.