„Íslenskur sjávarútvegur er í harðri samkeppni á al‏þ‏‏jóðlegum mörkuðum“

Hermann Stefánsson / myndir samherji.is / Hörður Geirsson
Hermann Stefánsson / myndir samherji.is / Hörður Geirsson

Hermann Stefánsson tók við sem framkvæmdastjóri Ice Fresh Seafood ehf. í júní er Gústaf Baldvinsson lét af störfum eftir að hafa st‎ýrt félaginu frá stofnun, árið 2007. Ice Fresh Seafood er sölu- og markaðsfyrirtæki Samherja.

Hermann segir að íslenskar sjávarafurðir séu seldar í harðri samkeppni á alþjóðlegum mörkuðum. Til að ná settum markmiðum þurfi að vanda til verka á öllum stigum virðiskeðjunnar, enda samþætting hennar lykillinn að velgengni íslensks sjávarútvegs.

Traustir innviðir og reynslumikið starfsfólk

„Þetta er öflugt félag í alla staði, innviðir eru traustir og þéttir sem skiptir höfuðmáli til að ná árangri. Hérna starfar reynslumikið fólk með víðtæka reynslu af sölu sjávarafurða, flutningi og afhendingu, sem vinnur náið með starfsfólki í veiðum og vinnslu. Til að ná árangri þurfa allir að ganga í takt á öllum sviðum, sem á reyndar við um allan íslenskan sjávarútveg. Mér hefur verið afskaplega vel tekið og hef stundum á orði að mér finnist ég hafa starfað hérna í mörg ár, sem endurspeglar væntanlega að starfsemin er ekki bara vel skipulögð og lausnamiðuð í alla staði, heldur er starfsandinn einstakur.“ segir Hermann þegar hann er spurður um fyrstu vikurnar í nýju starfi.

Hátæknibúnaður uppfyllir óskir kaupenda

Auk skrifstofa á Akureyri og í Reykjavík er Ice Fresh Seafood með söluskrifstofur í Englandi, Frakklandi, á Spáni og í Bandaríkjunum. Seldar eru afurðir til um fimmtíu þjóðlanda. Frakkland og Bretland eru helstu kaupendur bolfisks. Hermann segir að Íslendingar séu leiðandi í Bretlandi á sjófrystum þorskflökum fyrir þjóðarréttinn fish & chips. Frakkar séu á hinn bóginn hrifnir af ferskum afurðum, svo sem þorsk-og ýsuhnökkum.

Vatnsskurðarvélar skera flökin af mikilli nákvæmni

„Samherji hefur byggt upp glæsilegar landvinnslur á undanförnum árum, sem eru tæknilega fullkomnar og geta sinnt kröfum markaðarins. Sömu sögu er að segja um fiskiskipin, sem koma með ferskar afurðir til vinnslu eftir tiltölulega stuttar veiðiferðir.

Með hátæknibúnaði eins og vatnsskurðarvélum gefst kostur á að þróa nýjar vörur sem ekki var unnt að framleiða með eldri framleiðslutækni og ég segi hiklaust að Samherji sé frumkvöðull í þessum efnum. Þessi tækniþróun hefur leitt til þess að aukið hlutfall fer í verðmætustu afurðirnar og tryggir að hámarksverðmæti fæst fyrir hvert kíló sem dregið er úr sjó. Breytingarnar eru miklar á undanförnum árum og okkar hlutverk er auðvitað að verða við óskum markaðarins hverju sinni, þannig höfum við náð að vera leiðandi í greininni. Markaðsmálin eru í raun stanslaus vinna. Stöðugt framboð, öruggar flutningaleiðir og markvissar kynningar eru meðal þátta sem hafa áhrif á árangurinn. Fleiri atriði hafa áhrif eins og hagkerfin í heiminum sem sveiflast og kaupmáttur fólks þar með. Þannig að sviðsmyndirnar eru margvíslegar sem við erum að vinna með hverju sinni.“

Ábyrgur söluaðili allan ársins hring

Hermann hefur víðtæka reynslu í stjórnun og hefur lengi starfað við sjávarútveg. Hann var útgerðarstjóri Borgeyjar á árunum 1995-1999, framleiðslustjóri hjá Skinney-Þinganesi 1999-2010, framkvæmdastjóri Iceland-Pelagic 2010-2018 og forstjóri ÍSAM 2018-2024.

Hermann segir traust viðskiptasambönd mikils virði.

„ Samherji og Ice Fresh Seafood hafa náð að byggja upp öflugt sölunet viða um heiminn, þar sem gagnkvæmur skilningur á viðskiptunum er til staðar.

Við kappkostum að vera ábyrgur söluaðili sem stendur við gerða samninga, þar sem kaupendur geta gengið að gæðum sem vísum og afhendingu afurða á umsömdum tíma. Ef við stöndum ekki við þessa þætti er hætta á að hillupláss í verslunum glatist, sem getur tekið langan tíma að vinna til baka, enda samkeppnin gríðarlega hörð. Ef veitingahúsin fá ekki fiskinn á réttum tíma er hugsanlegt að hann detti einfaldlega út af matseðlinum, svo dæmi séu tekin.“

Þannig að það er ekki nóg að segjast vera með besta fiskinn í heiminum ? „Nei, það eitt og sér er ekki nóg. Seljandinn verður að vera með stöðug gæði og afhenda alla daga ársins. Þá er lykilatriði að vera með stöðuga vinnslu allan ársins hring, eins og Samherji gerir. Þótt Samherji teljist vera tiltölulega stórt fyrirtæki hérna á Íslandi er staðreyndin sú að við erum afskaplega lítið fyrirtæki á alþjóðavísu og þá er rökréttasta svarið að vera tæknivæddur, traustur seljandi með gæða vöru alla daga ársins. Þetta gleymist gjarnan í umræðunni hérna heima um þessa þjóðhagslegu mikilvægu undirstöðuatvinnugrein okkar Íslendinga.“

 

Bás Samherja og Ice Fresh Seafood á sjávarútvegssýningunni í Barcelona er á pari við bestu veitingastaði.

 

Flytja norður í haust

Hermann er kvæntur Elínu Sigríði Harðardóttur. Þau eru bæði fædd og uppalin á Höfn í Hornafirði, en hafa verið búsett í Reykjavík undanfarinn áratug.

„Við hjónin flytjum norður með haustinu. Akureyri er fallegur bær og hérna er svo að segja allt til alls, þannig að hjá okkur er ekkert annað en tilhlökkun og framundan er að pakka niður búslóðinni til flutnings norður. Reyndar þekki ég ágætlega til í bænum eftir að hafa tekið sjávarútvegsfræðina hérna í háskólanum á sínum tíma – frábært nám. Þessu starfi fylgja auðvitað ferðalög en ég mun kappkosta að vera í góðum tengslum við bæði samstarfsfólk og viðskiptavini um allan heim. Ég er gríðarlega spenntur fyrir starfinu og hlakka mikið til að vinna með öllu því góða fólki sem hér starfar,“ segir Hermann Stefánsson framkvæmdastjóri Ice Fresh Seafood ehf.

Flutningabíll leggur af stað með ferskar afurðir frá vinnsluhúsi ÚA á Akureyri/ mynd: Hörður Geirsson

Frá þessu segir á heimasíðu Samherja

Nýjast