„Við förum langt á þessari frábæru vörn“

„Ég er mjög ánægður með að hafa klárað þetta svona með þessum leik og þetta var bara framhald af því sem við höfum verið að gera í undanförnum leikjum. Þetta sýnir líka að liðið er í fínum gír og hefur metnað til að fara upp á við,“ segir Atli Hilmarsson þjálfari Akureyrar. Norðanmenn enduðu árið með stæl í N1-deild karla með sjö marka sigri gegn Val, 30-23, í Vodafonehöllinni sl. sunnudag. Þetta var síðasta umferðin fyrir jóla-og EM frí en næst verður leikið í deildinni 2. febrúar nk. Akureyri hefur unnið fimm af síðustu sex leikjum sínum og fengið ellefu stig af síðustu tólf mögulegum. Norðanmenn hafa nú jafnað Fram að stigum en bæði liðin hafa 14 stig, Fram í fjórða sæti en Akureyri í fimmta. Haukar enda árið á toppnum með 20 stig og FH og HK hafa 15 stig í öðru og þriðja sæti.

„Við höfum verið að bæta okkur jafnt og þétt og verið að fá inn menn úr meiðslum. Þetta hefur mjatlað vel hjá okkur og vörnin hefur verið svakalega góð og við förum langt á henni sem er að vinna marga leiki fyrir okkur. Svo var þetta ekki alveg að falla með okkur í haust þar sem við vorum að tapa þessum jöfnu leikjum sem í fyrra voru að falla okkar megin, en þetta er meira að falla með okkur núna. Það gerði hins vegar ungu leikmönnunum okkar gott að þurfa að takast á við þessi verkefni og það er frábært að þeir séu núna reynslunni ríkari. Það er auðveldara að henda þeim inn á núna ef á þarf að halda. Við eigum líka ennþá menn inni og það er ansi gott að fá frí núna til að huga að líkamlega ástandinu,“ segir Atli.

Nánar er rætt við Atla um stöðu mála í N1-deildinni á íþróttasíðum Vikudags í dag. Einnig er þar að finna viðtöl við knattspyrnumennina Atla Sigurjónsson og Gísla Pál Helgason og skíðakappann Björgvin Björgvinsson.

Nýjast