Húsnæðisverð á Akureyri hækkaði verulega í fyrra. Meðalstaðgreiðsluverð á fermetra á þriðja
ársfjórðungi 2017 í notuðu fjölbýli var 312 þúsund krónur á fermetra og hafði hækkað frá fyrra ári um 22% að raungildi. Þetta er meiri hækkun en var á sama tímabili á höfuðborgarsvæðinu þar sem fjölbýli í vísitölu Þjóðskrár Íslands hækkaði um rúmlega 17% að raungildi frá september 2016 til september 2017.
Þetta kemur fram í skýrslu Íslandsbanka um stöðuna á fasteignamarkaðnum á Akureyri.
Frá þriðja ársfjórðungi ársins 2013 og til þriðja ársfjórðungs 2017 hefur fermetraverð í fjölbýli á Akureyri hækkað um tæplega 65% á föstu verðlagi. Verð á nýbyggingum í fjölbýli hækkaði einnig mikið frá þriðja ársfjórðungi ársins 2016 til þriðja ársfjórðungs ársins 2017 eða um 17,6 % að raungildi. Í skýrslunni segir að á undanförnum misserum hafi fólki fjölgað á svæðinu sem skapar frekari eftirspurn eftir húsnæði.
Hæsta verðið í Naustahverfi
Við athugun á þróun íbúðaverðs á Akureyri var rýnt í verð á fjölbýli í hverfum bæjarfélagsins. Ekki liggja fyrir upplýsingar um verð íbúðarhúsnæðis eftir hverfum á árinu 2017 en hæsta meðalstaðgreiðsluverð á fermetra á Akureyri árið 2016 var í Naustahverfi eða að jafnaði um 308 þúsund krónur, en Naustahverfið er nýjasta hverfið í Akureyrarbæ. Næsthæsta verðið á árinu 2016 var í Giljahverfi eða 264 þúsund krónur á fermetra.
Veruleg hækkun húsnæðisverðs á Akureyri
„Áhugavert er að sjá að verðhækkunarhrina virðist hafa gengið yfir í Holta- og Hlíðahverfi, Síðuhverfi og Brekku og Innbæ árið 2015. Önnur hverfi sigldu í kjölfarið árið 2016,“ segir í skýrslunni.