Verkfræðistofan EFLA opnar skrifstofu á Akureyri

EFLA, ein af stærstu og öflugustu verkfræðistofum landsins með höfuðstöðvar í Reykjavík, hefur opnað skrifstofu á Akureyri. Fyrir eru útibú í Reykjanesbæ og á Austurlandi, ásamt Verkfræðistofu Suðurlands á Selfossi og starfsemi dótturfélaga erlendis. Skrifstofan á Akureyri er að Hofsbót 4 og forstöðumaður er Arnar Már Snorrason byggingatæknifræðingur.  

Með þessu skrefi vill EFLA treysta böndin við viðskiptavini hvarvetna á Norðvestur-, Norður- og Norðausturlandi, efla þjónustuna jafnt við þéttbýli sem dreifbýli í landshlutanum og bjóða viðskiptavinum nýja möguleika. Áherslur í ráðgjöf EFLU fyrir norðan munu m.a. lúta að umhverfismálum, jarðtækni, umferðar- og samgöngumálum, skipulagsmálum, viðhaldi mannvirkja og fasteignaumssjón, auk þess sem EFLA hyggst taka virkan þátt í framtíðaruppbyggingu atvinnulífs á norðanverðu landinu, ekki síst tengdri orku, iðnaði og sjávarútvegi. Með efldri starfsemi fyrir norðan sækist EFLA eftir að styrkja samfélagið, og stuðla að aukinni þekkingarmyndun og þróunarstarfi.
EFLA hefur um langt skeið unnið að fjölmörgum verkefnum fyrir sveitarfélög og fyrirtæki á ýmsum sviðum fyrir norðan, mörg verkefni eru í vinnslu og önnur þegar í farvatninu, segir í fréttatilkynningu.

Nýjast