Verðlaun veitt fyrir hugmyndir um sparnað hjá Akureyrarbæ

Snemma í vor var auglýst eftir hugmyndum starfsmanna hjá Akureyrarbæ um lækkun kostnaðar í rekstri sveitarfélagsins. Tekið var fram að hugmyndirnar mættu ná til allra rekstrarþátta í starfseminni hvort sem um væri að ræða laun eða önnur rekstrargjöld.  

Bæjarstjórinn á Akureyri, Hermann Jón Tómasson, veitti nýlega verðlaun fyrir bestu innsendu hugmyndirnar. Starfsmenn létu ekki sitt eftir liggja og bárust fjölmargar tillögur. Framkvæmdastjórn valdi tillögur frá eftirtöldum starfsmönnum: Hugrún Sigmundsdóttir, leikskólastjóri á Pálmholti fékk verðlaun fyrir hugmynd sína um að skólamötuneyti bæjarins fái úthlutað matjurtargörðum til afnota. Þar gæti sameinast sparnaður, umhverfisfræðsla og útikennsla. Hugrún átti jafnframt verðlaunatillögu um að koma á vöruskiptum milli stofnana bæjarins.

Davíð Hjálmar Haraldsson, starfsmaður á launadeild og Trausti Tryggvason starfsmaður á Fasteignum sendu báðir inn tillögur um sparnað í götulýsingu.  Bergur Þorri Benjamínsson á framkvæmdadeild og Jón Aðalsteinn Brynjólfsson í Lundarskóla fengu svipaða hugmynd um hvernig spara mætti með því að nota ókeypis hugbúnað í tölvur starfsmanna. Í verðlaun voru árskort í Sundlaugar Akureyrar.

Nýjast