Skilaboðin voru skýr og afdráttarlaus sem fjöldafundur Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar í Sjallanum á Akureyri sendi frá sér í gærkvöld, undir lok vetrar. Lagafrumvörp ríkisstjórnarinnar um veiðigjöld og stjórn fiskveiða fengu falleinkunn allra sem þar tóku til máls, m.a. fulltrúa sveitarfélaga við Eyjafjörð, útgerðarfyrirtækja með og án fiskvinnslu og fiskvinnslufólks. Enginn einasti maður mælti frumvörpunum bót, segir í fréttatilkynningu frá Útvegsmannafélagi Norðurlands.
Það segir sína sögu um vinnubrögðin að fram kom í máli Björns Snæbjörnssonar, formanns Einingar-Iðju, að ríkisstjórnin hefði enga ástæðu séð til að kynna Starfsgreinasambandi Íslands frumvörpin og að atvinnuveganefnd Alþingis hefði ekki óskað eftir umsögn Starfsgreinasambandsins um frumvörpin; svona rétt eins og hrikalegar afleiðingar áformaðra lagabreytinga kæmu starfsfólki í fiskvinnslu bara ekkert við!
Vond löggjöf fyrir Eyjafjörð
Geir Kristinn Aðalsteinsson, forseti bæjarstjórnar Akureyrar og fundarstjóri í Sjallanum, dró í lokin saman niðurstöðu umræðna efnislega á eftirfarandi hátt: Fólk í héraði hefur gríðarlegar áhyggjur. Óvissan er algjör, mál eru ekki hugsuð til enda, ljósir punktar eru vart finnanlegir og samráð skortir algjörlega. Löggjöfin er vond fyrir Eyjafjörð.
Fundurinn í Sjallanum staðfesti afdráttarlaust að Eyfirðingar skynja alvöru málsins og þá ógn sem steðjar að fyrirtækjum í sjávarútvegi, stoðfyrirtækjum greinarinnar og að sjálfum byggðarlögunum. Ólöf Ýr Lárusdóttir, forstjóri Vélfags í Fjallabyggð og einn frummælenda í Sjallanum, tók svo til orða að markmiðið virtist hreinlega vera það að rífa niður og stefna til fortíðar. Ef svo væri stæðu frumvörpin fyllilega undir tilgangi sínum.
Hráslagi í frumvörpum
Svanfríður I. Jónasdóttir, bæjarstjóri á Dalvík, lýsti yfir á fundinum að sveitarstjórnarfólk á svæðinu myndi nú boða til sín þá alþingismenn kjördæmisins sem sitja í atvinnuveganefnd Alþingis oggeraþeim grein fyrir boðskap Sjallafundarins. Hún kvaðst hafa reiknað með því að skerðing aflaheimilda árið 2007 myndi skila sér til baka þegar betur áraði en í staðinn stæðu menn frammi fyrir nýrri skerðingu sem kemur lóðbeint niður á bolfiskvinnslu við Eyjafjörð. Svanfríður sat á sínum tíma í svokallaðri sáttanefnd um stefnu í sjávarútvegsmálum. Nefndin skilaði af sér niðurstöðu sem víðtæk samstaða var um en sem ríkisstjórnin virti að vettugi. Hún sagði að meðal efnisatriða í niðurstöðu sáttanefndar hefði verið aðgeranýtingarsamninga og innheimta greiðslu fyrir afnot af auðlindinni, án þess að tölur væru þar inni. Svanfríður orðaði það svo að útfærsla þessara atriða væri hráslagaleg í fyrirliggjandi frumvörpum.
Andvaraleysi sjómanna
Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri Ramma í Fjallabyggð og frummælandi á fundinum, benti á að allir væru að reikna út og reyna að meta áhrif áformaðra lagabreytinga á fyrirtæki, sveitarfélög og byggðarlög - aðrir en ríkisstjórnin og liðsmenn hennar á Alþingi! Ráðherrar væru með ólund út í þá sem gagnrýndu og reiknuðu en hefðu sjálfir ekkert handfast fram að færa um áhrif og afleiðingar.
Hann vísaði til útreikninga varðandi eigin fyrirtæki, Ramma, þar sem veiðigjaldið hefði farið úr 56 í 772 milljónir króna árið 2010, miðað við forsendur frumvarpsins nú - hátt í fjórtánföldun! Nettóáhrif af skerðingu veiðiheimilda og hækkun veiðigjalds hefðu orðið um 860 milljónir króna að teknu tilliti til samdráttar í rekstrarkostnaði vegna minni aflaheimilda. Ólafur orðaði niðurstöðuna svo: Ríkið tekur allt og meira til. Fyrirtækið á fyrir vöxtum og veiðiskattinum en getur ekki staðið að fullu við afborganir.
Horfandi á þessar tölur verð ég að segja að mér finnst sjómenn sýna furðu mikið andvaraleysi. Við búum við hlutaskiptakerfi þar sem sjómenn eiga tvo af hverjum fimm fiskum sem um borð koma. Nú ætlar ríkið að taka til sín tæpan fimmtung, einn af hverjum fimm fiskum. Óhjákvæmilegt er að það komi niður á launum sjómanna og svo geta menn velt fyrir sér hvaða áhrif slíkt síðan hefur á útsvar og tekjuskatt, minnkandi veltu í nærsamfélaginu o.s.frv.
Ólafur vék einnig að ríkisvæðingu sjávarútvegsins sem stefnt væri að með lagabreytingunni:
Það er gert ráð fyrir að gríðarlegt magn verði gert upptækt strax við gildistöku laganna. Áfram verður aflaheimildum varið til strandveiða, línuívilnunar og byggðakvóta. En svo verður til nýtt fyrirbæri, ríkisleiga á aflamarki.
Frumvarpið gerir ráð fyrir kerfisbundinni upptöku aflaheimilda allan leyfistímann. Þannig á leiguhlutinn að vaxa hratt, til dæmis tekur ríkið 3% til sín við öll viðskipti með aflahlutdeild. Verði frumvarpið samþykkt verður fjöldi útgerða gjaldþrota, bankarnir leysa til sín fyrirtækin og ríkið tekur 3% af aflaheimildum þeirra í pott 2. Bankinn selur svo fyrirtækin aftur og enn tekur ríkið til sín 3% í pott 2. Ef fyrirtæki sameinast til að ná fram auknu hagræði tekur ríkið enn og aftur 3%!
1,7 milljónir í veiðileyfagjald á hvern íbúa, takk!
Það kom fram í máli Gests Geirssonar, framkvæmdastjóra landvinnslu Samherja og fulltrúa í pallboðsumræðum á Sjallafundinum, að veiðileyfagjald á Samherja hefði numið 2,6 milljörðum króna árið 2010 ef núverandi frumvarp hefði þá gilt sem lög. Þessu til viðbótar myndi skerðing aflaheimilda að sjálfsögðu hafa afar alvarleg áhrif á starfsemi Samherja og sjávarútvegsins í heild á Eyjafjarðarsvæðinu. Endurskoðunarfyrirtækið KPMG hefur á sama hátt reiknað út veiðileyfagjald á sjávarútvegsfyrirtækin á Dalvík og á Grenivík miðað við árið 2010. Niðurstaðan er um 600 milljónir króna á Grenivík en um 700 milljónir króna á Dalvík. Veiðileyfagjaldið á Grenivík svarar til um 1,7 milljóna króna á hvern einasta íbúa í sveitarfélaginu!
Ríkisstjórnin dragi frumvörpin til baka
Ástæða er til að þakka Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar fyrir að efna til fundar um áhrif sjávarútvegsfrumvarpanna, ef að lögum verða. Þar komu fram ýmsar fróðlegar en hrollvekjandi upplýsingar. Rísandi mótmælaalda fer um landið. Aðvörunum og alvarlegum athugasemdum rignir yfir ríkisstjórn og Alþingi. Frumvörpin eru ekki einu sinni umræðugrundvöllur. Þau á að draga til baka og hefja síðan uppbyggilega vinnu við nýja sjávarútvegsstefnu í samráði við þá sem hlut eiga að máli, segir í fréttatilkynningu Útvegsmannafélags Norðurlands.