Vaxandi áhugi fyrir eigin grænmetisræktun

Systurnar Þóra og Anna Jóhannsdætur að taka upp úr garðinum sínum við gömlu Gróðrarstöðina á Akureyr…
Systurnar Þóra og Anna Jóhannsdætur að taka upp úr garðinum sínum við gömlu Gróðrarstöðina á Akureyri sl. haust.

Rúmlega 300 manns sóttu um matjurtagarða á svæði við Ræktunarstöð Akureyrarbæjar á Krókeyri og er það álíka stór hópur og sótti um í fyrra. Þetta er í fjórða sinn sem Akureyrarbær býður bæjarbúum upp á að rækta eigið grænmeti í reitum sem fyrir hendi eru á svæðinu og segir  Jóhann Thorarensen verkstjóri í ræktunarstöðinni segir að áhuginn sé síst minni nú en verið hefur undanfarin ár.  Ef eitthvað er fari hann fremur vaxandi. Hver og einn hefur 15 fermetra til umráða og fylgir með hverjum reit kál- og kryddplöntur, sáningaplöntur og spírað útsæði.

Jóhann segir að Grímseyingar komi nú í vor sterkir inn, þar er mikill áhugi fyrir að rækta eigið grænmeti. „Þeir ganga inn í pakkann sem í boði er, en nokkrar fjölskyldur í eynni hafa tekið sig saman og útbúið garð sem nýta á til grænmetisræktunar í sumar,“ segir Jóhann. Hann gerir ráð fyrir að halda úti í eyju þegar fer að vora og halda þar örfyrirlestur um grænmetisræktun.  Hríseyingar eru einnig áhugasamir og er að sögn Jóhanns stefnt að því að bjóða garða þar sumarið 2013.  Það hafi ekki tekist fyrir komandi sumar þar sem garðurinn var ekki tilbúinn. „Það verður spennandi að fylgjast með eyjaskeggjum á næstunni, því  ef hægt er að rækta grænmeti í Grímsey er það alls staðar hægt,“ segir hann.

 

Nýjast