Búist er við versnandi veðri þegar líður á daginn en á vef Vegagerðarinnar segir að hríðarbakki sé væntanlegur úr norðri. Síðdegis, upp úr kl. 16-17 mun, veður versna til muna norðanlands og eins á norðanverðum Vestfjörðum. Reikna má með 15-20 m/s með ofankomu og skafrenningi.
Mjög blint verður við þessar aðstæður og einnig á láglendi. Þó ekki snjói á sunnanverðum Vestfjörðum verður þar skafrenningur sem og á Snæfellsnesi og í Borgarfirði. Jaðar hríðarbakkans er skarpur. Honum er spáð við Tjörnes. Þar fyrir austan helst veður skaplegt.
Norðaustan hvassviðri til föstudags
Á vef Veðurstofu Íslands segir í athugasemd veðurfræðings að útlit sé fyrir norðaustan hvassviðri eða storm með snjókomu eða éljum um landið norðanvert frá þriðjudegi til föstudags. Fólk sem hyggur á ferðalög er hvatt til að fylgjast vel með þróun veðurspáa og viðvarana.