Vantar fleiri farþega

„Þetta gengur ágætlega en okkur vantar fleiri farþega,” segir Þorsteinn Pétursson hjá Hollvinum Húna II, en boðið hefur verið upp á siglingar í sumar með bátnum eins og undanfarin ár. Á fimmtudögum eru siglingar til Hjalteyrar ásamt skemmtilegri sögugöngu og á  föstudagskvöldum er svo boðið upp á sögusiglingu meðfram ströndinni.

 „Mér sýnist aðsóknin hafa verið minni núna í sumar heldur en undanfarin ár. Við höfum t.d. verið að sigla fyrir Akureyrarbæ með krakkana sem hafa verið að vinna á sumrin undanfarin ár en það var ekkert þetta sumarið, þannig að það hefur dregið aðeins úr þessu.”

Þorsteinn segir engann bilbug sé að finna hjá þeim á Húna þrátt fyrir dræmari aðsókn í ár. „Það hefur aldrei verið gróði af Húna ævintýrinu, gróðinn er að mannskapurinn sem er að vinna við þetta hefur svo gaman af þessu og við erum ákveðnir í að bjarga þessum bát.” Húni mun bjóða upp á siglingu til Dalvíkur á Fiskideginum mikla. Lagt verður af stað klukkan átta um morguninn og verður báturinn til sýnis á Dalvík yfir daginn og siglt til baka seinni part dagsins. Boðið verður upp á siglingar með Húna II fram í lok september.

 

Nýjast