Oddný G. Harðardóttir fjármálaráðherra segir að Vaðalheiðargöng muni skipta miklu máli fyrir svæðið fyrir norðan, bæði vegna öruggari samgangna yfir vetrartímann og styttingu aksturleiða en einnig sem tenging á milli atvinnusvæða. Það atriði er enn mikilvægara nú vegna uppbyggingar og markaðssetningar iðnaðarsvæðisins á Bakka. Samgöngubót sem Vaðlaheiðargöng mun nýtast vel við þá uppbyggingu og greiða leið á milli atvinnusvæða á Norðurlandi, sagði fjármálaráðherra.
Þetta kom fram í fyrirspurnatíma á Alþingi í dag, þar sem Höskuldur Þórhallsson þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi var málshefjandi og spurði fjármálaráðherra um stöðu mála varðandi göngin.
Fjármálaráðherra sagði alls staðar þar sem göng eru tekin í notkun aukist umferð til muna og því sé spurt hvort þróunin varðandi þessi göng verði með öðrum hætti. Slíkum framkvæmdum sem Vaðlaheiðargöngum fylgir alltaf einhver áhætta en samkvæmt niðurstöðu IFS Greiningar þá mun sú fjárhagslega minnka um leið og eigið fé félagsins er aukið. Frumvarp um veitingu lánsins til verkefna félagsins er tilbúið í ráðuneytinu en eins og gert er ráð fyrir þá óskaði fjármálaráðuneytið eftir umsögn ríkisábyrgðarsjóðs um frumvarpið og er viðbragða hans að vænta á allra næstu dögum. Frumvarpið fer fyrir ríkisstjórn þegar umsögn sjóðsins liggur fyrir og nú fer hver að verða síðastur að leggja fram frumvörp fyrir yfirstandandi þing, þannig að ekki eru margir dagar til stefnu, sagði fjármálaráðherra.
Auk Höskuldar tóku fjölmargir þingmenn þátt í umræðunni og voru þeir flestir fylgjandi því að ráðist verði í framkvæmdina. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir þingmaður VG og formaður umhverfis- og samgöngunefndar talaði gegn framkvæmdinni sem fyrr og það gerði Ásbjörn Óttarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins einnig.