Utankjörfundaratkvæðagreiðsla samþykkt hjá Framsókn í NA-kjördæmi

Stjórn kjördæmissambands Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi samþykkti á fundi sínum í gærkvöld að breyta fyrri ákvörðun sinni á dögunum og heimila utankjörfundaratkvæðagreiðslu við val á lista flokksins fyrir alþingiskosningarnar í vor. Utankjörfundaratkvæðagreiðslan fer fram á nokkrum stöðum í kjördæminu laugardaginn 14. mars, daginn fyrir aukakjördæmisþingið á Egilsstöðum en einnig verður hægt að kjósa á þinginu.  

Guðlaug Kristinsdóttir formaður Framsóknarfélags Akureyrar og varaformaður kjördæmissambandsins, sagðist ánægð með þessa niðurstöðu og að þetta sé niðurstaða sem hún hefði viljað sjá burt séð frá því hvar aukakjördæmisþingið hefði farið fram. Hún sagði það sína skoðun að með þessum hætti væri hægt að ganga lengst í því í gefa sem flestum tækifæri til að taka þátt í valinu og að um það snérist málið. "Þetta gengur ekki út það að hægt verði að smala í flokkinn á næstunni, því þeir sem geta tekið þátt eru þeir sem skráðir voru í flokkinn fyrir 15. febrúar sl.," sagði Guðlaug.

Samkvæmt fyrri ákvörðun kjördæmissambandsins átti einungis að kjósa um átta efstu sætin á aukakjördæmisþinginu á Egilsstöðum, þar sem allir flokksbundnir framsóknarmenn í kjördæminu þann 15. febrúar sl. gátu tekið þátt. Vegna fjölda áskorana óskuðu nokkur framsóknarfélög í kjördæminu, á svæðinu frá Dalvík austur í Ljósavatnshrepp, eftir utankjörfundaratkvæðagreiðslu við val á lista flokksins. Í ályktun félaganna var m.a. bent á að kjördæmið væri mjög víðfemt, eldri framsóknarmenn í kjördæminu myndu ekki treysta sér í langferðir í þeirri vetrarfærð sem nú ríkir, auk þess sem fram hafi komið vilji til þess á kjördæmisþinginu að gefa sem flestum möguleika á taka þátt í vali frambjóðenda.

Nýjast