Úrslitakeppnin í blaki hefst í kvöld

Úrslitakeppnin í Mikasa-deild karla í blaki hefst í kvöld og verða KA-menn í eldlínunni. Norðanmenn mæta Stjörnunni í undanúrslitum en í hinni undanúrslitaviðureigninni eigast við HK og Þróttur R. Fyrstu leikirnir fara fram í kvöld og munu Stjarnan og KA eigast við í Ásgarði í Garðabænum kl. 19:30, en mætast síðan í KA-heimilinu á fimmtudaginn kemur. Vinna þarf tvo leiki til þess að komast í úrslit en komi til oddaleikja fara þeir fram mánudaginn 16. apríl.

Í kvennaflokki verða það Þróttur N., HK, Afturelding og Þróttur R. sem leika til úrslita. KA-stúlkur enduðu í neðsta sæti deildarinnar með aðeins eitt stig. Fjögur efstu liðin komast í úrslitakeppnina og þar sem sjö lið leika í kvennaflokki en aðeins fjögur í karlaflokki, sitja KA-stúlkur eftir en karlalið KA getur varið Íslandsmeistaratitilinn frá því í fyrra.

Nýjast