Margir Evróvisjónaðdáendur munu kætast í Hofi 5. maí nk. en þá er uppselt á Evróvisjóntónleika sem haldnir eru af Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í samstarfi við Tónlistarskólann á Akureyri. Óhætt er að fullyrða að Hamraborgin muni geisla af krafti og fjöri en SN stígur á stokk með söngvurunum Regínu Ósk og Friðriki Ómari auk kórs og bakradda. Heiðursgestir tónleikanna eru þau Greta Salóme og Jónsi sem munu flytja lagið Never forget sem keppir nú í maí fyrir Íslands hönd í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í Aserbaídsjan, segir í fréttatilkynningu. Á tónleikunum gefst áheyrendum tækifæri til að heyra klassíska Evróvisjónslagara en á efnisskránni eru m.a. lögin: Waterloo, Nína, Fly on the wings of love, Eldur, Wild Dances, La det swinge og Gleðibankinn.