Þremur starfsmönnum Becromal á Akureyri var í gær sagt upp störfum en þeir voru allir þátttakendur í kjaraviðræðum við fyrirtækið, segir í frétt á vef RÚV. Verksmiðjustjórinn segir uppsagnirnar vegna samdráttar í framleiðslu. Með þessum þremur uppsögnum hefur níu starfsmönnum í verksmiðju Becromal verið sagt upp frá áramótum, en sex var sagt þar upp um síðustu mánaðarmót. Að sögn Emanuele Saiu, verksmiðjustjóra Becromal á Akureyri í frétt RÚV, eru þessar uppsagnir til komnar vegna samdráttar í framleiðslu verksmiðjunnar sem stafar af erfiðum aðstæðum á erlendum mörkuðum. Verksmiðjan hefur ekki verið rekin með fullum afköstum frá því í desember síðastliðnum og fyrirtækið býst ekki við að það breytist í bráð. Þeir starfsmenn sem sagt var upp í gær tóku þátt í samningaviðræðum sem undanfarnar vikur hafa staðið yfr við Becromal um nýjan kjarasamning í verksmiðjunni. Þeir voru í svokölluðum bakhópi samninganefndar en ekki formlegir fulltrúar í nefndinni.
Í verksmiðjunni er unnið samkvæmt bráðabirgðasamningi frá síðastliðnu vori en hann fellur úr gildi 15. apríl. Eining-Iðja leiðir samningaviðræður fyrir hönd starfsmanna og hafa viðræður gengið erfiðlega. Náist ekki samnignar fyrir 1. apríl má vísa deilunni til sáttasemjara. Starfsmenn í verksmiðju Becromal segjast fá litlar upplýsingar um framvindu mála og því ríki óvissa þeirra á meðal um hvað sé framundan. Þetta segir Emanuele Saiu verksmiðjustjóri að sé ekki rétt. Starfsmenn séu upplýstir reglulega, bæði á fundum og með öðrum hætti.