Umhverfisstofnun: Kynningarfundur á Húsavík á fimmtudag vegna Bakka

Á framkvæmdasvæðinu á Bakka. Mynd: JS
Á framkvæmdasvæðinu á Bakka. Mynd: JS

Umhverfisstofnun auglýsir tillögu að nýju starfsleyfi fyrir kísilverksmiðju á Bakka í Norðurþingi. Auglýsingin fer fram á tímabilinu 20. júlí til 15. september 2017. Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna er til 15. september 2017.

Af þessu tilefni fer fram opinn kynningarfundur í sal Framsýnar, fundarsal stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26, Húsavík, fimmtudaginn 7. september næstkomandi. Fundurinn hefst kl. 16:30 og verður fjallað um starfsleyfisútgáfu Umhverfisstofnunar, eftirlit með mengandi starfsemi, umhverfisvöktun sem tengist starfseminni auk þess sem tillagan verður kynnt. Einnig verður opnað fyrir fyrirspurnir og umræður.

Björn Þorláksson, upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar, segir að á fundinum gefist íbúum Húsavíkur og nærsveitafólki tækifæri til að leita svara við áleitnum spurningum. Til dæmis sé ekki ólíklegt í ljósi reynslunnar frá United Silicon í Helguvík að íbúar séu áhugasamir um hvernig staðið verði að ákvæðum um lyktarmengun í starfsleyfi PCC. Fundurinn ætti að geta veitt einhver svör í þeim efnum, að sögn Björns. JS

Nýjast