Heildarfjöldi ferðamanna að meðtöldum farþegum skemmtiferðaskipa var árið 2009 0,7% meiri en árið 2008, eða 566 þúsund miðað við 562 þúsund og því má gera ráð fyrir að um sé að ræða stærsta ferðamannaárið á Íslandi frá upphafi. Langflestir erlendra gesta, eða 94%, fóru um Keflavíkurflugvöll, 2,8% um Reykjavíkurflugvöll, 2,8% með Norrænu um Seyðisfjörð og 0,3% um Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöll. Farþegar til Íslands með skemmtiferðaskipum voru tæplega 72 þúsund á árinu 2009, 16% fleiri en árinu áður.
Ferðamálastofa hefur um árabil staðið fyrir brottfarartalningum á Keflavíkurflugvelli eftir helstu þjóðernum. Samkvæmt þeim fóru 464.500 erlendir gestir frá landinu um flugvöllinn á árinu 2009, sem er fækkun um 8.000 gesti eða 1,7% frá árinu áður. 254.500 Íslendingar fóru utan á árinu 2009 en á árinu 2008 fóru 406.600 Íslendingar utan. Fækkunin nemur 37% milli ára.
Alls fóru 1.570 erlendir gestir um Akureyrarflugvöll á síðasta ári, eða 430 færri en árið áður og nemur fækkunin 21,5%.