Umdeild brú kostar 84 milljónir

Áætlað er að Leikhúsbrúin verði formlega vígð í byrjun ágúst í sumar. Mynd/Þröstur Ernir.
Áætlað er að Leikhúsbrúin verði formlega vígð í byrjun ágúst í sumar. Mynd/Þröstur Ernir.

Heildarkostnaður við byggingu Leikhúsbrúarinnar svokölluðu við Drottningarbraut á Akureyri er áætlaður 84 milljónir króna. Guðríður Friðriksdóttir, sviðsstjóri umhverfis-og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar, segir smíðina ganga vel og kostnaður sé á áætlun. Reiknað er með að verklok verði í byrjun ágúst á þessu ári.

Brúin er hluti af Drottningarbrautarstígnum og er hún hugsuð sem göngubrú og afþreyingarstaður. Leikhúsbrúin er vinnuheiti og komið til af því að hún stendur neðan við leikhúsið. Brúin verður um 86 metra löng og jafnbreið og stigurinn sitt hvoru megin við. Hún verður yfirbyggð á 15 metra kafla þar sem hægt verður að fara út á svalir að austan og vestan til að njóta útsýnisins án þess að trufla hjólandi eða gangandi umferð. Allt efni í brúna er valið með það í huga að mannvirkið geti staðið traust og lengi við ströndina. Þá verður brúin upplýst á svipaðan hátt og fjörustígurinn.

„Sjónmengun,“ „brú yfir ekkert“ og „hönnunarslys“  

Óhætt er að segja að smíði brúarinnar sé umdeild meðal bæjarbúa. Vikudagur deildi frétt á Facebooksíðu blaðsins nýverið þar sem sagt var frá gangi mála við framkvæmdina og spruttu upp ansi líflegar umræður í kjölfarið. Og sitt sýnist hverjum um ágæti framkvæmdarinnar. Margir finna brúnni allt til foráttu og segja þetta brú yfir ekki neitt, aðrir tala um sjónmengun og hönnunarslys.

En aðrir eru þó mun jákvæðari í garð framkvæmdarinnar. Bent er á að brúin sé falleg og flott og geti orðið eitt af kennileitum bæjarins. Þá þykir sumum að hún auki fegurðina við Pollinn og um gott framtak sé að ræða hjá bæjaryfirvöldum. 

Nýjast