Um jafnt vægi atkvæða

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar

Margir gera þá kröfu að stjórnlagaþing leggi til að gera landið að einu kjördæmi.  Í því skyni að afnema misvægi  atkvæða.  Er þetta skynsamlegt?  Allt orkar tvímælis þá gjört er.

Í stjórnarskránni  er landinu skipt í sex kjördæmi.  Ef meira en tvöfaldur munur er á atkvæðum bak við þingmann samanborið milli tveggja kjördæma þá missir annað kjördæmið þingmann til kjördæmisins þar sem atkvæðin eru fleiri á bak við hvern þingmann.  Í núverandi kerfi er því tryggt að misvægi atkvæða verður aldrei meira en tveir.  Hvað þýðir þetta ef byggðaþróunin heldur áfram á sömu braut?  Einfaldlega það að suðvesturhornið fær fleiri og fleiri þingmenn en landsbyggðin færri og færri.  Núverandi kerfi er því alls ekki óhagstætt höfuðborgarsvæðinu. 

Þetta fyrirkomulag hefur þó galla.  Það er raunverulegt vandamál að þingmenn hafa lítinn áhuga á málum utan síns kjördæmis.  Vandi einstakra byggðarlaga fær litla athygli utan þingmanna frá viðkomandi kjördæmi.   Verst kveður að þessu varðandi samgöngur, þingmenn telja samgöngubætur ekki vera þeirra mál svo lengi sem þær snerta ekki þeirra kjördæmi, þær komi þeim einfaldlega ekki við.  Ísland eitt kjördæmi gæti verið til bóta hvað þetta varðar.  Þá þyrftu allir þingmenn að líta á Ísland í heild sinni, það væri þeirra kjördæmi og ekki væri hægt að horfa framhjá einstaka landsvæðum.

Ísland eitt kjördæmi hefur þó einnig mikla galla.  Fyrsta spurningin sem kemur upp er hvort það sé í lagi að bjóða upp á þann möguleika að heill landshluti eigi engan málsvara á Alþingi sem er heimakunnugur?  Er það í lagi ef enginn þingmaður yrði frá Austurlandi?  Eða enginn frá Vestfjörðum?  Svarið á alþjóðavísu við þessari spurningu er nei.  Víðast hvar um heiminn, hvort sem það er á Evrópuþinginu eða í einstökum  löndum er það viðurkennt að það er hluti af lýðræðinu að fámennari landsvæði eigi líka sína fulltrúa þrátt fyrir að það kosti misvægi atkvæða.  Þess mun Ísland njóta ef það gengur í Evrópubandalagið.

Ég ætla að benda á þriðju leiðina í þessum efnum sem ég tel að komi til greina.  Til að tryggja að rödd hvers landshluta sé inni á Alþingi þá verði nokkrir þingmenn kosnir sér frá hverjum landsfjórðungi.  Kannski 2-4.  (Gætu einnig verið þrengri landsvæði með færri þingmenn).  Restin, meginþorri þingmanna 47-55, sé kosin í kosningu þar sem Ísland er eitt kjördæmi.  Frambjóðendur þyrftu þá að velja hvort þeir byðu sig fram í landsfjórðungi eða á landsvísu.  Ekki ætti að vera þörf á sérstökum þingmönnum frá því landsvæði þar sem Alþingi er staðsett.  Ef Alþingi væri staðsett á Egilsstöðum væri ekki þörf á sérstökum þingmönnum frá Austurlandi, rödd Austurlands myndi sjálfkrafa heyrast á þinginu þar sem nánast allir þingmennirnir myndu búa þar og hrærast með sínum fjölskyldum.  En þá væru hins vegar sérstakir þingmenn frá höfuðborgarsvæðinu.  Með þessu móti myndi yfirgnæfandi hluti Alþingis líta á atburð á afmörkuðu landsvæði sem atburð í sínu kjördæmi.  En jafnframt yrði tryggt að hver landshluti ætti rödd inn á Alþingi.

Þessar þrjár leiðir, sem og aðrar sem upp  kunna að koma, þarf að ræða vel og yfirvegað á Stjórnlagaþingi.  Þingið má ekki verða vettvangur  þar sem fjölmennari svæði Íslands neyta aflsmunar umhugsunarlaust til að knýja fram áhrifaleysi fámennari landsvæða.  Þá er hætt við að ekki verði litið á nýja stjórnarskrá sem stjórnarskrá allra Íslendinga.

Höfundur er frambjóðandi til stjórnlagaþings nr. 6538.

Nýjast