Sveitarfélagið Norðurþing og bresk-norska félagið GIGA-42 Ltd. hafa undirritað viljayfirlýsingu um uppbyggingu gagnavers á iðnaðarsvæðinu á Bakka við Húsavík. Um er að ræða fyrsta fasa á gervigreindarveri á 4,3 hektara lóð með 50 MW raforkuþörf en GIGA-42 þarf að semja við Landsvirkjun um afhendingu rafmagns til verkefnisins. Það voru Bergþór Bjarnason, staðgengill sveitarstjóra Norðurþings og William Tasney forstjóri GIGA-42 sem undirrituðu viljayfirlýsinguna á Húsavík í morgun.
Það eru stækkunarmöguleikar á verkefninu fáist meiri orka enda ljóst að eftirspurn eftir reikniafli ofurtölva og gagnageymslu mun aukast á næstu árum með auknum notum gervigreindar í samfélaginu. Miðað er við að framkvæmdir hefjist á fyrri hluta árs 2026 og áætlað að um 100 einstaklingar komi að byggingu versins, hönnun og skipulagi framkvæmda.
Þegar uppbyggingu fyrsta fasa gagnaversins er lokið er gert ráð fyrir um 50 til 80 varanlegum störfum á tæknisviði; rafmagnsverkfræði, rafvirkjun, vélaverkfræði, kælitækni auk verkstjórnar, rekstrartækni, kerfisfræði og almennra starfa. Um er að ræða rekstur allan sólarhringinn allan ársins hring.
Ísland getur orðið miðpunktur gervigreindarlausna. Kostir uppbyggingar gagnavers á Bakka er nálægð við spennivirki frá Þeistareykjum og þegar skipulagt iðnaðarsvæði. Samfélagið á Húsavík er sterkt og sveitarstjórn er með skýra sýn á iðnaðaruppbyggingu í Norðurþingi og á iðnaðarsvæðinu á Bakka. Afleiða frá gagnaverinu er glatvarmi sem getur nýst við frekari uppbyggingu á svæðinu, t.d. fyrir fiskeldi, gróðurhús eða aðra matvælastarfsemi.
Sveitarstjórn Norðurþings bókaði á síðasta fundi að iðnaðarsvæðið á Bakka er í einstakri stöðu til að sameina endurnýjanlega jarðvarmaorku með mikla rekstrarhagkvæmni í köldu loftslagi og endurvinnslu á varma. Auk þess að gagnaver sem byggir á gervigreind hafi möguleika til að gagnast heimafólki, atvinnulífi og hagkerfi Íslendinga í heild.