Ágætis aðsókn er yfir sumarmánuðina á Útgerðarminjasafnið á Grenivík. Talsvert fleiri komu við á safninu í júní miðað við sama mánuði í fyrra en svipaður fjöldi gesta sótti safnið heim í júlí. Veður hefur áhrif á aðsókn segir Björn Ingólfsson formaður stjórnar safnsins.
Hann segir flesta gripi safnsins úrelta og úr sér gengna af mikilli notkun, „þeir eru trosnaðir, eyddir og ryðgaðir en virðast hreyfa við þeim sem inn koma og gefa sér tíma til að skoða.“ Björn vitnar í hollensk hjón sem skrifuðu fallega í gestabók safnsins nýverið:
„Að menn skyldu sækja sjó á þeim tímum þegar ekki var að hafa það öryggi sem menn njóta núna veldur því að við dáumst að forfeðrum þessa staðar. Það er frábært hvernig þið heiðrið minningu þeirra með þessu safni. Erfitt væri að ímynda sér lífið á þeirra tímum án þessarar sýningar. Við óskum ykkur alls hins besta og aflasældar.“