Í kringum 50 þúsund gestir heimsóttu skíðasvæðið í Hlíðarfjalli í vetur sem er undir meðallagi, en meðalfjöldinn er um 68 þúsund gestir að sögn Guðmundar Karls Jónssonar, forstöðumanns í Hlíðarfjalli. Guðmundur segir þó að veturinn hafi komið þokkalega út. „Hlýindin framan af vetri höfðu vissulega áhrif. Aðsókn helst í hendur við snjóalögin. En þetta slapp þó vel fyrir horn,“ segir Guðmundur Karl.
Í vetrarfríum hjá grunnskólunum og um páskana var veðrið með besta móti og hjálpaði það til við að trekkja fólk í fjallið. „Páskarnir voru nánast á pari við undanfarin ár og það sama gildir um vetrarfríin. Veðrið spilar alltaf langmest inn í aðsóknina og gott veður þessa frídaga hafði mikið að segja,“ segir Guðmundur.
Sólarhringsopnun í maí
Sunnudagurinn sl. var síðasti opnunardagurinn í bili, en þó ekki lokadagurinn þennan veturinn því sólarhringsopnun verður fyrstu helgina í maí. Þá verður opið frá kl. 17:00 föstudaginn 5. maí og lokað kl. 23:00 á laugardagskvöldinu.
„Þetta er í þriðja sinn sem við gerum þetta og framtakið hefur vakið mikla lukku. Fólk hefur streymt í fjallið þessa sólarhringsopnun,“ segir Guðmundur Karl.