Alls gáfu 1373 einstaklingar blóð hjá Blóðbankanum á Sjúkrahúsinu á Akureyri á liðnu ári, heldur færri en árið þar á undan þegar þeir voru 1492 talsins. Á rið 2011 skráðu 150 manns sig inn sem nýir blóðgjafar hjá bankanum að sögn Guðrúnar Hildar Guðmundsdóttur deildarstjóra hjá blóðbankanum, en nýir blóðgjafar árið 2010 voru 171. Starfssemin hefur gengið mjög vel fyrir sig hjá okkur, segir Guðrún Hildur sem verið hefur deildarstjóri yfir blóðgjöfunum frá árinu 2008. Við erum að fá að meðaltali um 8-10 blóðgjafa á dag.
Nú nýverið náðu fimm blóðgjafar því marki að gefa blóð í 50. skipti hjá Blóðabanka Sjúkrahússins og var af því tilefni slegið upp smá veislu þeim til heiðurs. Blóðgjafarnir sem um ræðir eru Gunnar Rafn Helgason, Marta Þuríður Pálsdóttir, Jónas Óli Egilsson, Þengill Ásgrímsson og Þorbergur Hinriksson. Guðrún Hildur segir að um 50 blóðgjafar hafi náð þessu marki áður og að nokkur tímamót verði í vor, líklega í apríl þegar einn blóðgjafi, Arnór Þorgeirsson, sem er starfsmaður við Sjúkrahúsið á Akureyri nær þeim áfanga að gefa blóð í 100 skipti. Hann verður sá fyrsti sem nær því marki hér hjá okkur, segir Guðrún Hildur. Arnór gaf fyrst blóð árið 1986. Blóðbankinn er opin mánudaga til fimmtudag frá kl. 8.15 til 14, en lokað er á föstudögum.