Um 29 milljóna króna halli á rekstri FSA fyrstu sjö mánuðina

Samkvæmt rekstraruppgjöri Sjúkrahússins á Akureyri fyrstu sjö mánuði ársins eru gjöld umfram tekjur um 29 milljónir króna eða 1,2% miðað við fjárveitingar. Launakostnaður nemur samtals 1.929 milljónum og hefur hækkað um 2,5% miðað við fyrra ár.  Laun eru um 12 milljónir innan áætlunar eða 0,6%.   

Breytileg yfirvinna hefur lækkað um 15% á milli ára og stöðum hefur fækkað að meðaltali um 23. Almenn rekstrargjöld eru 849 milljónir og hafa hækkað um rúm 25% á milli ára.  Almenn rekstrargjöld hafa farið um 15 milljónir framúr áætlun eða 1,8%.  S-merkt lyf hafa hækkað um 96%, bæði vegna gengis og magnaukningar og eru um 23 milljónir umfram áætlun, þar af eru um 7 milljónir vegna gengisbreytinga. Sértekjur nema 396 milljónum og eru 3,6% lægri en áætlað var eða 14,4 milljónir.  Það stafar m.a. af því að ekki varð af fjölgun gerviliðaaðgerða um 60 sem gert hafði verið ráð fyrir í áætlun en einnig hefur sala á almennum rannsóknum og myndgreiningum dregist saman. 

Starfsemi tímabilsins er nokkru minni en var á síðasta ári.  Legudögum hefur fækkað um 15,6% og aðgerðum um 19,6%.  Fjöldi sjúklinga hefur þó aukist um 0,9% og fæðingum hefur fjölgað um 6,6%.  Almennt hefur rannsóknum fækkað og sama er að segja um ferliverk og slysadeildarkomur. Eins og oft áður hafa forsendur fjárlaga ekki staðist og á það einkum við um gengisþróun, segir í frétt vef FSA. Þegar áhrif gengis og verðlags hafa verið reiknuð og borin saman við forsendur fjárlaga kemur í ljós að kostnaðaraukning vegna þess er um 45 milljónir króna.  Hefðu forsendur staðist hefði því verið um 17 milljóna króna afgangur af rekstri í lok júlí eða 0,7%. Rekstrarstaðan eftir 7 mánuði sýnir að áætlanir hafa gengið eftir og umtalsverður árangur hefur náðst í lækkun kostnaðar.  Það verður þó verkefni næstu mánaða að ná niður þeim rekstrarhalla sem þegar er orðinn auk þess sem fyrirséðar eru frekari lækkanir á fjárlögum ársins 2010. 

Nýjast