Keppni á Landsmótinu hófst reyndar í gær þegar hjólreiðamenn hjóluðu á milli Reykjavíkur og Akureyrar. Þeir Hafsteinn Ægir Geirsson og Pétur Þór Ragnarsson urðu langfyrstir í hjólreiðakeppninni en tólf lið lögðu af stað úr höfuðborginni klukkan sjö í gærmorgun. Hafsteinn og Pétur skiptust á að hjóla og þeir komu til Akureyrar um kl. 19.00 í gærkvöld. Meðalhraði sigurvegaranna var 39 km á klukkustund.
Kl. 13.00 í dag hófst keppni í skotfimi á skotsvæðinu á Glerárdal og í bridds í Glerárskóla. Handboltamenn hefja leik í KA-heimilinu kl. 14.00 og klukkutíma síðar hefst keppni í frjálsum íþróttum á félagssvæði Þórs við Hamar. Næstu daga verður svo keppt frá morgni til kvölds víðs vegar um bæinn. Stór og glæsileg mótsetning verður á Þórssvæðinu annað kvöld, föstudag, kl. 20.00. Von er á mörg þúsund manns á setningarathöfnina og verður vegleg dagskrá í boði. Meðal annars mun forseti Íslands flytja ávarp, öll íþróttafélögin munu marsera inn á svæðið og svo mun íþróttamaður koma með kyndil og kveikja á landsmótseldinum.