Um 2.000 keppendur á N1- móti KA og Pollamóti Þórs

Gríðarlegur fjöldi gesta er á Akureyri þessa dagana en nú standa þar yfir tvö af stærstu knattspyrnumótum ársins, N1-mót KA í 5. flokki drengja og Pollamót Þórs, Kaupþings og Carlsberg, þar sem knattspyrnumenn sem komnir eru af léttasta skeiðinu takast á. Keppni á N1-móti KA hófst sl. miðvikudag en keppni á Pollamóti Þórs hófst nú í morgun.  

Alls eru um 1.400 ungir knattspyrnumenn í baráttunni á KA-svæðinu og þeim stóra hópi fylgja fjölmargir þjálfarar, liðstjórar, aðstoðarmenn, foreldrar og systkini. Alls eru liðin 144 og koma þau frá 33 félögum. Síðustu leikir mótsins fara fram seinni partinn á morgun laugardag en mótinu lýkur  með lokahófi í KA-heimilinu annað kvöld, þar sem verðlaunaafhending fer fram.

Alls taka um 60 lið þátt í Pollamóti Þórs, eða um 600 knattspyrnumenn og þar af koma tvö lið erlendis frá. Þessum stóra hópi fylgja svo makar og börn. Mótinu er skipt í Polladeild, fyrir 30 ára og eldri, Lávarðadeild fyrir 40 ára og eldri og Öðlingadeild fyrir 50 ára og eldri. Að auki verður Skvísudeild fyrir konur 25 ára og eldri og Ljónynjudeild fyrir konur 35 ára og eldri. Leikið verður í dag og á morgun laugardag á Pollamótinu en lokahóf mótsins verður í Hamri annað kvöld.

Nýjast